Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Síða 164
162
Orð af orði
askur
Askur er langalgengasta orðið um tréílát það sem menn borðuðu úr
spónamat. Það kemur fyrir þegar í físl. og á sér samsvörun í nno. ask
k. ‘lítið tréker, smjörkirna, .. .’, fsæ. asker, nsæ. ask k. ‘askja, stokkur,
..nhþ. asch ‘ker’, mlþ. ask og fhþ. asc ‘skál, ker’. Orðið er að sjálf-
sögðu tengt askur k. ‘trjátegund (fraxinus)’, og upphafleg merking: ‘ílát
gert úr trjáviði’. Askur merkti að fornu einnig skip og spjót, sbr. fe. œsc
(sama merking), fhþ. asc og frankamál (Lex. Salica) ascus ‘skip’. Er
heitið upphaflega dregið af þeim efniviði sem hlutir þessir voru smíðaðir
úr, sbr. enn fremur skyld orð eins og askja, eski og eskja.
drettingur
Drettingur er heiti á litlum aski og tíðkast eitthvað sunnanlands og
austan segir í handriti frá öndverðri 19. öld og er sú frásögn vísast reist
á eldri heimildum, líklega frá 18. öld. Orðið drettingur er raunar kunn-
ugt í annarri merkingu. Það er haft um silakepp, flakkara og letingja,
mann sem dragnast á eftir. Það kemur fyrir sem viðurnefni í fornu máli
og þá vísast í þessari veru — og allmörg dæmi eru um orðið frá síðari
öldum. Tæpast leikur vafi á að upphafleg merking þess er ‘silalegur
maður’ e. þ. u. 1., enda orðið tengt so. drattafst) og no. dröttur, ‘seinfær
maður, silakeppur’, sbr. og dröttull, dröttólfur ‘slóði, skussi’ og drött-
ungur ‘taumstirður hestur, silalegur maður, allstór fiskur’. Ekki er Ijóst
hvernig askmerkingin í orðinu er tilkomin. Að vísu má hugsa sér að
einhver hafi kallað askinn sinn dretting af því að honum hafi þótt hann
seint á ferð með vökvunina, en vant að sjá hvernig slíkt heiti gat orðið
að samnafni. Ekki er heldur líklegt að drettingur merki hér sama og
dratthali og nafngiftin sé einskonar samsvörun við tæfill, en útilokað er
það þó ekki.
kani
Kani k., kana kv. Askheitið lcani kemur fyrir í fornu máli, og mörg
dæmi eru um það í nýmálinu, allt frá 17. öld og fram á okkar daga, og
ýmsir heimildarmenn láta þess getið að það eigi einkum við lítinn ask.
Það á sér hljóðfarslega og merkingarlega samsvörun í nno. kane ‘tví-