Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1935, Page 65
Þrjú kvœði
Eftir P. S. Pálsson.
SÖKNUÐUR
Þú varst mín eina von og trú
og vegarstjarnan mín.
Það birtir æ í hjarta og hug
er hugsa eg til þín.
Um vetrar-kvöldin köld og löng
er kvíði að dyrum ber,
við minninganna arin-eld
eg orna mér hjá þér.
Eg kveð til þín er sígur sól
að sæ um fögur kvöld,
og litar skarlats-skrúði fjöll
og skóg og himin-tjöld.
En rúm og tími tefja ljóð
svo til þín ei það nær,
því okkur skilja skógar, fjöll
og sker og úfinn sær.
En ef að litla ljóðið mitt
að landi þínu ber,
þá skilur þú að ást mín öll
er einni helguð þér:
1 hending hverri er hulið tár
og heilög von og þrá
að mega aftur mæta þér,
—ef morgunn rís úr sjá.
SKILNAÐUR
Eg kom til að kveðja þig vina,
að kveðja þig hinsta sinn.
Mót sólu og sumri er þin ganga,
—í svartnættið vegur minn.
En taktu ekki hart á þó hrjóti
mér höfug tár um brá,
því nú er eg nálgaðist bæinn
eg nóttina gráta sá.
Eg heyrði að brim-aldan bólgna
brotnaði er kendi hún lands,
og sogið var sárt og napurt
sem síðasta andvarp manns.
En hafmeyjan strengina stilti,
um storð og loft og höf
þá tónarnir titrandi liðu
sem tár á vinar gröf.
Og blástjarnan brosinu týndi,
—en blikuðu í augum tár.
Eg sá hvernig sorgin var máluð
á svip og heitar brár.
En léttfættu norðurljósin
sem léku um himininn,
með stirðnuðu brosi störðu
er steig eg hingað inn.
Þú tekur ei hart á þó hrjóti
mér höfug tár um kinn,
því eg hefi komið að kveðja,
að kveðja þig hinsta sinn.
Hið eina sem veita má yndi
að æfinnar hinstu stund,
er mynd þín í muna falin
og minning um liðinn fund.
ENDURFUNDIR
í ástarsælu hlið við hlið,
við hlýddum saman vorsins klið,
og sálir okkar saman runnu
því sömu ljóðin hæði kunnu.
Og lífið varð sem eilíf eining.
—Við áttum bæði sömu meining.
En lýgi og rógur lágu þar
í leyni, er okkur framhjá bar,
og eplið til þín réttu rauða.
Með rós á kinn, i augum dauða
eg sá þig ljúka lífi þínu.
-—Eg lík þitt gróf i hjarta mínu.
Svo liðu ár. Mig aftur bar
einn aftan þar sem lík þitt var.
Og hugur þreyttur hvíldir þráði,
við hjartarætur mínar áði.
Þá leit þar inn,—sá ljós á skari,—
hinn lúni, þreytti nætur-fari.
Sjá, öll varð hvelfing hjartans björt
þótt haustnótt úti hiði svört.
Eg sá að vonin sat þar inni
með særðri ást, hjá kistu þinni.
Og gleymdu ljóði Ijósið nærði
sem líf að nýju í skarið færði.