Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1949, Page 8
6
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
III.
Þó að konungsins veldi og keisarans makt,
séu klofin og hásæti að grundvelli lagt,
gnæfir kauphöllin hátt
upp í heiðloftið blátt,
sem er heimsstjórnin þessara daga á jörð.
Hún er umskapað helmyrkur Hallgríms og Jóns,
sem er hafið til dýrðar í sálu hvers þjóns.
Hún er endurleyst gull.
Hún er auðsæla full.
Hún er upprisa Mammons hjá nýríkri þjóð.
IV.
Brátt rís sól yfir grundum og söngur í önd,
speglast sumar í legi og dölum og strönd.
Þá er vorsæla hlý,
þá er veröldin ný,
sem þig vekur og slítur öll böndin af þér.
Það er framtíð, sem æskunnar heldur í hönd
út í himin-víð, ónumin sólroðin lönd.
Það er voraldan há
upp við heiðloftin blá,
sem þig hrífur í leikinn og tekur með sér.
V.
Kom þú voröld þess máttar, sem mannkynið á,
kom þú miskunn og réttlæti, bú okkur hjá,
kom þú sólaröld hlý,
kom þú siguröld ný,
eins og syngjandi vorfossar yfir oss streym!
Þá er heimsvistin lengur ei helja né böl,
þá er horfin öll sárasta mannanna kvöl.
Þá er guðsríki á jörð,
er hin glaðværa hjörð
hefir grimd send í útlegð en kærleikann heim.