Fréttatíminn - 13.12.2013, Blaðsíða 26
Þ etta er meiriháttar. Ég er innilega þakklátur. Ég var heima að skúra og ryksuga þegar það var
hringt í mig og mér tilkynnt að ég
ætti mest seldu bók landsins. Mér
hefur aldrei fundist eins gaman
að skúra og ryksuga og eftir þetta
símtal,“ segir Vilhelm Anton Jóns-
son, höfundur Vísindabókar Villa
sem er mest selda bók landsins um
þessar mundir.
Vil að krakkar fái að vera hissa
Villi hefur komið eins og storm-
sveipur inn í jólabókaflóðið í ár
og slegið við mörgum þekktum
söluhöfundum. Í síðustu viku
seldi hann til að mynda meira en
þau Arnaldur Indriðason og Yrsa
Sigurðardóttir og situr fyrir vikið
á toppi Bóksölulistans. Útgefandi
Villa hefur látið prenta 15 þúsund
eintök af bókinni og býst við að þau
klárist fyrir jól. Hreint ekki amaleg
byrjun á höfundarferlinum.
Þegar maður spjallar við Villa er
augljóst að bókin og efni hennar
er honum hjartans mál. „Ef ég
tek mig út úr jöfnunni þá finnst
mér líka gaman að þessi bók sé
sú mest selda, að bók fyrir börn
nái því. Mér finnst nefnilega svo
innilega gaman þegar krakkar eru
forvitnir og fá að vera það,“ segir
Villi. „Það að vera hissa er svo
ótrúlega dýrmætt. Börnum finnst
allt vera merkilegt. Þegar maður
verður eldri verður allt hversdags-
legt, hvort sem það eru snjókornin
sem falla, skýin eða hvað sem
er. Við töpum svo miklu þegar
við erum hætt að vera hissa, við
töpum miklu af því sem gerir það
að verkum að gaman er að vera til.
Það sem mig langaði að gera var
að vekja forvitni. Ég vil að krakkar
fái að vera hissa,“ segir Villi sem á
sjálfur sex ára strák.
Þessi forvitni og áhugi þinn getur
ekki hafa sprottið fram á fullorðins-
árum. Hvernig varstu sem krakki?
„Ég var rosalega óþægur krakki.
Einn vinur mömmu og pabba sagði
einu sinni í gríni að hann hafi
aldrei hitt barn sem hann langaði
eins mikið að sparka í og mig,“
segir Villi og hlær. Hann ólst upp á
Laugum í Reykjadal þar sem pabbi
hans var skólastjóri í skólanum og
mamma hans kennari. „Mamma
rak mig úr tíma og sendi mig til
skólastjórans. Síðan þurftu þau að
fara með mig heim til að gefa mér
að borða. Síðan þá hef ég ekki borið
mikla virðingu fyrir yfirvaldi.“
Villi kveðst hafa verið mjög upp-
átækjsamur og forvitinn krakki.
„Ég er stundum spurður að því
hvort ég hafi verið svona krakki
sem skrúfaði hluti í sundur og setti
þá saman. Ég var svona krakki sem
skrúfaði hluti í sundur og hafði
ekki eirð í mér til að setja þá saman
aftur. En ég hef alltaf verið rosalega
forvitinn, mig langar svo að skilja
allt. Ég öfunda son minn og vini
hans mikið því þeir munu sjá geggj-
aða hluti. Þeir munu sjá hluti sem
ég mun ekki sjá því þeir munu lifa
lengur. Ég öfunda krakka af því.“
Var aldrei góður
námsmaður sjálfur
Nýverið bárust fréttir af lélegum
árangri íslenskra krakka í Pisa-
könnun. Einkum og sér í lagi komu
drengir illa út úr könnuninni,
bæði í stærðfræði og lestri. Stór
hluti drengja getur ekki lesið sér
til gagns. Vinsældir Vísindabókar
Villa eru því óneitanlega ánægju-
legar ef þær skyldu hjálpa til við að
virkja krakkana. Höfundur bókar-
innar var að eigin sögn ekki mikill
námsmaður en það hefur nú ræst
ágætlega úr honum.
„Mér fannst ógeðslega gaman í
skóla en ég var aldrei góður náms-
maður. Ég fór oft í alla stærðfræði-
áfangana í MA en kláraði svo BA-
próf í heimspeki. Mín skoðun er
sú að hlutverk menntastofnana sé
að vekja forvitni. Ef þú býrð til for-
vitni þá soga krakkar allt í sig. En
ef einhverju er troðið ofan í kokið
á þér þá spýtirðu því strax út aftur.
Mitt hlutverk í þessari bók er það
sama, að vekja forvitni. Ég er það
tannhjól, svo taka aðrir við. Ég
reyni bara að gera hlutina forvitni-
lega. Ég gæti til dæmis ekki stillt
efnajöfnu af þó það myndi bjarga
lífi mínu.“
Hefði getað verið andlit Hi-C
Villi segir að starf kennara í dag sé
afar erfitt. Þeir þurfi að fást við alls
konar vandamál hjá nemendum því
það sé búið að velta mörgum hlut-
verkum og skyldum yfir á kenn-
arana. „Þeir bera meiri ábyrgð og
það eru gerðar meiri kröfur en
áður. Það er allt gott og blessað en
það má þá ekki koma fólki á óvart
að eitthvað láti undan.“
Hvað getum við gert betur?
„Fyrirgefðu ef ég tönnlast á þessu
en við þurfum að hvetja til og rækta
forvitni og örva skapandi og gagn-
rýna hugsun. Það þarf líka að koma
til móts við þá sem eru ekki góðir í
að lesa og reikna,“ segir Villi.
Hann leggur líka áherslu á að
það séu aðrar leiðir til að ná til
barna en í gegnum bækur. „Bækur
mega fara í hundsrassgat fyrir
mér, alveg eins og plötur. Þetta
eru farartæki, það er farmurinn
sem skiptir máli. Ljóð munu áfram
verða ort og tónlist verður samin
og þetta mun komast til skila. En
hverri krónu sem varið er í að verja
miðilinn er illa varið. Farmurinn
mun alltaf finna sér leið.“
Nú eru liðin þrjú eða fjögur ár
síðan Villi fékk hugmyndina að
bókinni en vinnan við hana hefur
tekið rúmlega eitt ár. Hann er
ánægður að geta náð til krakka
með fróðleik sem nýtist þeim.
„Ég átta mig á því að krakk-
arnir vita hver ég er, ég hef gefið
út plötur og verið bæði í útvarpi
og sjónvarpi. Ég er svolítið eins og
sprauta, ég veit að ég hef aðgang,
að ég kemst inn. Það var bara
spurning hvað ég ætti að setja
í sprautuna og ég valdi að setja
þekkingu. Ég hefði getað verið
andlit Hi-C eða Kóks og fengið
fullt af peningum fyrir en ég er
ekki alinn þannig upp.“
Bjartsýnn á komandi kynslóðir
Nú hefurðu farið víða að undan-
förnu og hitt krakka vegna bókar-
innar. Hvernig líst þér á ungu kyn-
slóðina?
„Ég er ógeðslega bjartsýnn. Ég
er miklu bjartsýnni á framtíðina en
ég var. Ég er tiltölulega raunsær
skástrik svartsýnn að eðlisfari en
eftir að hafa hitt alla þessa krakka
hef ég ekki áhyggjur. Þessir
krakkar eru allir fæddir eða upp-
aldir í hruninu við orðræðu sem er
í besta falli ekki til fyrirmyndar og
jafnvel bara ömurleg og rætin. Ég
held að þau séu bara búin að fá nóg
og vilja gera eitthvað skemmtilegt.
Þessir krakkar munu stjórna öllu
þegar ég verð gamall og ég vona að
skapandi hugsun þeirra skili sér.
Að það verði betri elliheimili en nú
en í versta falli að þau muni eftir
mér svo ég fái auka sveskjur eða
eitthvað álíka.“
Hvað með framhaldið, má ekki
búast við því að þú fylgir þessum
vinsældum eftir með annarri bók?
„Mig langar til þess. Þetta hefur
verið ógeðslega gaman. Ótrúlegt
en satt er þetta ekki tæmandi
grundvallarrit um alheiminn
þannig að ef fólk vill vita meira
þá stendur ekki á mér. Velgengni
þessarar bókar gerir það að verk-
um að ég get borgað mér laun til
að skrifa aðra bók. Þá er þetta bara
spurning um hvort forlagið, prent-
smiðjan og aðrir séu til. Og hvort
bókabúðir eru tilbúnar að selja
bókina, líka um helgar.“
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@frettatiminn.is
Vilhelm Anton Jónsson á
mest seldu bók landsins um
þessar mundir, Vísindabók
Villa, og slær þar með
við þekktum metsöluhöf-
undum. Villi er ánægður með
velgengnina enda er það
honum mikið hjartans mál
að krakkar fái að vera for-
vitnir og svali forvitni sinni.
Hann hefur farið víða að
kynna bókina og hitt mikið af
krökkum. Villi er bjartsýnn á
framtíð ungu kynslóðarinnar
þó nýlegar niðurstöður
Pisa-könnunar gefi annað til
kynna, sjálfur hafi hann aldrei
verið góður námsmaður.
Villi sigurvegari
Vilhelm Anton Jónsson hefur
getið sér gott orð sem tón-
listarmaður, útvarpsmaður
og sjónvarpsmaður í gegnum
tíðina. Nú hefur hann slegið
í gegn með fyrstu bók sína,
Vísindabók Villa.
Ljósmynd/Hari
26 viðtal Helgin 13.-15. desember 2013