Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Qupperneq 30
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 201430
fjöLmenningarLegT námssamféLag
með gagnrýnum augum á námið og skipulag þess, sem og þau tækifæri sem það
skapar til virkrar þátttöku og þroska. Þetta sjónarmið var ríkjandi í alþjóðlega náminu
eins og áður segir (Books o.fl., 2011), en einnig í rannsókninni sem hér er fjallað um.
Shor (1996) fjallar um mikilvægi þess að nemendur fá tækifæri í námi sínu til að tjá
eigin skoðanir og reynslu, bæði í ræðu og riti vegna þess að með þeim hætti öðlist þeir
betri innsýn í eigin viðhorf og skilji betur samspil reynslu og skoðana. Þátttaka með
þessum hætti getur reynt mjög á nemendur, ekki síst ef fyrirkomulag námsins felur
í sér flata valddreifingu. Nemendur fá þá aukið vald en um leið aukna ábyrð á eigin
námi. Sumum nemendum líkar þetta fyrirkomulag afar illa eins og sjá má af skrifum
Shor (1996), bregðast reiðir við þessum tilraunum kennara og vilja láta segja sér ná-
kvæmlega til hvers er ætlast af þeim. Meginhugmyndir gagnrýninnar uppeldisfræði
eru eins og áður segir nátengdar hugmyndum gagnrýninnar fjölmenningarhyggju og
hugmyndafræði fjölmenningarlegrar menntunar sem fjallað verður um hér á eftir (sjá
Allyson Macdonald og Auður Pálsdóttir, 2011; Books o.fl., 2011; Hanna Ragnarsdóttir,
2012).
Gagnrýnin fjölmenningarhyggja, fjölmenningarleg menntun
og alþjóðlegt nám
May (1999a, 1999b) er einn þeirra höfunda sem tengt hefur gagnrýna fjölmenn-
ingarhyggju við mótun menntastefnu. Hann telur að hafa þurfi í huga hvernig
félagsleg gildi, skipulag og stofnanir samfélagsins eru endursköpuð í skólum og öðrum
menntastofnunum. Að mati May nægir ekki að gera breytingar á námskrám til að
koma til móts við samfélagsbreytingar í átt að fjölmenningarlegri samfélögum, heldur
þurfi að horfa á mismunun sem felist í formgerð samfélaga. Gagnrýnin fjölmenningar-
hyggja og gagnrýnin fjölmenningarleg menntun tengjast m.a. skrifum Freire (1998)
sem undirstrikar mikilvægi þess að fólk taki þátt í umbreytingum í menntun og hvet-
ur til gagnrýninnar ígrundunar. Freire (2007) telur þörf vera á menntun til vitundar-
vakningar (e. education for critical consciousness) sem geri fólki kleift að fjalla um
vandamál í umhverfi sínu og grípa inn í þegar við á.
Fjölmenningarleg menntun er margt í senn; hugmyndafræði, stefna, umbótahreyf-
ing í menntun og ferli, svo nokkuð sé nefnt (Banks, 2007; Nieto, 2010). Að mati Banks
(2007) felur hún í sér þá hugmynd að allir nemendur, óháð kyni þeirra, stétt, menningu
og uppruna, eigi að hafa jöfn tækifæri til menntunar. Banks (2007) og Nieto (2010) hafa
gagnrýnt að skólastarf sé miðað við þarfir meirihlutahóps eða -hópa samfélagsins og
reynsla, menning og saga annarra menningar-, tungumála- eða trúarhópa sé hunsuð.
Þetta leiði til mismununar og vinni gegn jafnrétti. Enn fremur hefur Nieto (2010) bent
á að væntingar til ákveðinna nemendahópa (t.d. nemenda af erlendum uppruna) séu
minni en til annarra hópa (meirihlutahópa samfélagsins) og þannig sé mismunun
haldið við og stuðlað að jaðarsetningu.
Í mótun alþjóðlegs náms, ekki síst á háskólastigi, er að mati ýmissa fræðimanna
mikilvægt að byggja á þeirri margvíslegu þekkingu sem nemendahópar koma með
og leitast við að þróa fjölmenningarlegt námssamfélag þar sem reynt er að virkja fjöl-
breytta nemendahópa til þátttöku (Carroll og Ryan, 2005; Gundara, 2000). Margt er