Læknablaðið - 15.12.2011, Blaðsíða 52
UMFJÖLLUN O G GREINAR
Aldraðir hafa ólíkar þarfir
■ ■ ■ Hávar Sigurjónsson
Eva Nilsson Bágenholm var gestur og
fyrirlesari á málþingi um siðfræði erfða-
rannsókna sem Læknafélag Islands
efndi til sem hluta af aðalfundi félagsins
í október síðastliðnum. Nilsson hefur
nýverið tekið að sér nýtt starf á vegum
sænska heilbrigðisráðuneytisins sem
felst í samræmingu á þjónustu við aldr-
aða á landsvísu í Svíþjóð.
Eva Nilsson er fyrrverandi formaður
Sænska læknafélagsins og hefur átt sæti í
nefnd WMA, alþjóðafélags lækna, sem sett
hefur niður tillögur að siðareglum fyrir
hið alþjóðlega læknasamfélag, og í fyrir-
lestri sínum fór hún yfir þessar tillögur og
reifaði hugmyndirnar að baki þeim.
„I alþjóðasamfélaginu erum við að fást
við mjög mismunandi umhverfi sem ræðst
af menningu og lagasetningu hvers lands
eða heimshluta. Tillögur WMA beinast að
því að samræma siðareglur á heimsvísu
en þar eru oft mjög ólík sjónarmið uppi
sem þarf að sætta. Þó hefur okkur tekist
að setja niður tillögur sem öll aðildarfélög
okkar hafa tekið undir."
Eitt af því sem Nilsson nefndi í erindi
sínu var mikilvægi þess að vísindamenn
birtu neikvæðar niðurstöður rannsókna
ekki síður en jákvæðar. „Þetta er mikil-
vægt til þess að koma í veg fyrir að slíkar
rannsóknir séu endurteknar af öðrum,
einfaldlega vegna þess að þeir vita ekki af
fyrri rannsókn. Vandinn er sá að þeir sem
gera rannsókn með neikvæðum niður-
stöðum eru lítið spenntir fyrir að birta
niðurstöðurnar og þar af leiðandi fréttir
alþjóðasamfélagið ekki af rannsókninni.
Gleymum ekki að neikvæðar niðurstöður
geta beint öðrum í rétta átt."
Nilsson segir WMA ekki hafa vald eða
umboð til að setja aðildarfélögum sínum
lög eða reglur. „Við gerum einungis tillög-
ur en með því að aðildarfélögin hafa sam-
þykkt þær er líklegra að þau hlíti þeim.
Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á
og allir eru sammála um innan WMA er
að þátttakendum í lyfja- eða læknisfræði-
legum rannsóknum sé fylgt eftir þegar
rannsókninni er lokið. Með þessu er til að
mynda átt við að ef hópi sjúklinga hefur í
rannsókn verið gefið tiltekið lyf sem skilað
hefur góðum árangri, þá fái þeir lyfið eða
meðferðina áfram eftir að rannsókninni
lýkur. Við þekkjum dæmi um þetta úr
þróunarlöndunum þar sem lyfjafyrirtæki
hafa öll ráð í hendi sér og stjórna því jafn-
vel hverjir sitja í rannsóknasiðanefndum í
viðkomandi löndum."
Nilsson segir að sem betur fer séu slík
dæmi á undanhaldi og rannsóknasiðferði
sé yfirleitt í mjög góðu horfi. „Siðareglur
WMA hafa verið til í fjóra áratugi og eru
endurskoðaðar reglulega með tilliti til
breytinga á umhverfi og inntaki rann-
sókna."
300.000 aldraðir þurfa mikla þjónustu
Eva Nilsson Bágenholm tók nýlega við
nýju starfi innan sænska heilbrigðis-
ráðuneytisins þar sem henni er ætlað að
hafa umsjón með samræmingu félags- og
hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða í Svíþjóð.
Hún segir að rétt eins og annars staðar á
Vesturlöndum fari fólki á eftirlaunaaldri
fjölgandi, margir séu sjálfbjarga um alla
hluti löngu eftir að eftirlaunaaldri er náð
en að því komi fyrr eða seinna að samfé-
lagið þurfi að hlaupa undir bagga og veita
viðeigandi þjónustu.
„Þetta er nýtt starf sem ekki hefur verið
til áður og því mjög spennandi að takast
á við það. Öldrunarþjónusta í Svíþjóð er
á hendi þriggja aðila, sveitarfélaganna,
sýslnanna og ríkisins. Þessi þjónusta skar-
ast að nokkru leyti og menn eru meðvit-
aðir um að ýmislegt gæti sparast með því
að samræma þjónustuna betur og öðlast
betri yfirsýn. Sýslurnar sjá um heilbrigðis-
þjónustuna og sveitarfélögin sinna félags-
þjónustunni. Hlutur ríkisins er fólginn í
fjárveitingum til beggja málaflokka, en þó
hafa bæði sýslur og sveitarfélög sína sjálf-
stæðu tekjustofna. Langflestir aldraðra
þurfa á hvoru tveggja að halda og þar
liggja helstu möguleikar okkar á að auka
hagkvæmni. Við sjáum fram á að á næstu
árum og áratugum muni öldruðum fjölga
og því er mikilvægt að koma þjónustu við
þennan sístækkandi hóp þjóðfélagsins í
sem hagkvæmast horf. Mitt starf felst í því
fá sýslurnar og sveitarfélögin til að starfa
saman að þessu verkefni, skipta með sér
verkum og gæta þess að starfsemin skarist
ekki og umbuna þeim sem tekst vel til.
Umbunin felst í því að ríkið setur auknar
fjárveitingar í málaflokkinn og veitir þær
til sveitarfélaga og sýslna sem standa sig
vel. Við erum að vinna að því að setja
upp nothæfa mælikvarða til að geta metið
árangurinn. Við munum gefa niðurstöð-
urnar út og það ætti að verða enn meiri
hvatning."
716 LÆKNAblaðið 2011/97