Frjáls verslun - 01.05.2009, Blaðsíða 62
62 F R J Á L S V E R S L U N • 5 . T B L . 2 0 0 9
Á H r i F a M E s t a r Á n o r ð u r L ö n D u M
Það er sagt að Hanni Toosbuy Kasparzak
hafi aðeins einu sinni veitt viðtal opinber-
lega. Það fjallaði um hesta. Hanni er ríkasta
kona Danmerkur en hún er huldukona,
með sambönd á æðstu stöðum. Auð sinn
erfði hún með skóm föður síns.
Hanni Toosbuy Kasparzak er ríkasta kona
Danmerkur. Það er sagt að auður hennar
nemi 14 milljörðum danskra króna eða yfir
300 milljörðum íslenskra. Og þetta hefur
hún erft eftir Karl Toosbuy, föður sinn. Sá
byrjaði að búa til skó í smábænum Bredebro
á Suður-Jótlandi árið 1963.
Þetta voru öðruvísi skór en aðrir skór,
svokallaðir fótlagaskór. Hugmyndin var að
skórinn passaði á fótinn en ekki öfugt og
Karl kallaði skóna sína Ecco. Núna er Ecco
alþjóðlegt stórfyrirtæki.
Ecco-skórnir eru dæmigerðir fyrir mörg
norræn iðnaðarævintýri: Lítt menntaður
maður fær snjalla hugmynd og gerir það
sem engum hefur dottið í hug áður. Svona
urðu IKEA og Lego líka til.
Leyndardómsfull kona
Hanni var einkabarn foreldra sinna og hún
erfði fyrirtækið þegar faðir hennar lést árið
2004. Að þessu leyti er hún dæmigerð fyrir
margar „ríkustu konur“ að auðurinn er arfur
frá föður. En það er ekki öll sagan þegar
Hanni á í hlut. Hún er líka slyng kona í
viðskiptum og er æðsti stjórnandi í sínu fyr-
irtæki.
Og hún situr í stjórnum bæði banka
og eignarhaldsfélaga þar sem fjallað er um
peninga. En hún talar aldrei um peninga á
almannafæri.
Hanni er fædd árið 1957 og er nú titluð
eigandi og stjórnarformaður Ecco og dótt-
urfélaga þess. Framkvæmdastjórinn er Dieter
Kasparzak, eiginmaður Hanni. Hann er
Þjóðverji sem upphaflega kom til Ecco sem
lærlingur í skóhönnun og fékk að lokum
prinsessuna og hálft konungsríkið. Hönnun
hefur alltaf verið aðalmerki Ecco og enn er
hönnunardeildin miðpunktur fyrirtækisins.
Núna á Ecco um 3000 skóbúðir um
allan heim. Fyrirtækið er með framleiðslu
í mörgum löndum en höfuðstöðvarnar eru
enn heima í Bredebro. Hjá Ecco starfa um
12 þúsund manns við að búa til um 14
milljón skópör á ári.
Hestar og prinsessur
Hanni hefur sambönd víða. Mesta athygli
vekur að hún er í vinahópi konungsfjöl-
skyldunnar og einkavinkona Benediktu,
systur Margrétar drottningar. Og þær eiga
sameiginlegt áhugamál: hesta. Það er þess
vegna sem Hanni talar opinberlega ekki um
annað en hesta.
Fjölskyldan býr enn á Suður-Jótlandi og
umgengst ekki annað ríkt fólk í landinu –
nema það eigi hesta. Hanni hefur lagt fé í
að kynna hestamennsku fyrir unglingum og
hún er helsta stoð ólympíuliðs Dana í hesta-
mennsku. Það hefur að vísu ekki gengið
alveg gagnrýnilaust fyrir sig því Anna, dóttir
hennar og Dieters, er í landsliðinu og mun
væntanlega keppa á næstu ólympíuleikum.
Illar tungur segja að móðirin hafi keypt
sæti fyrir dótturina í liðinu. Aðrir segja að
það væri mjög fjarri skapferli Hanni að mis-
nota auð sinn fjölskyldunni til framdráttar.
Hjá Hanni fær enginn neitt ókeypis. Það
á svo eftir að koma í ljós hvort Anna litla
dóttir hennar keppir á leikunum.
Hanni toosbuy Kasparzak er ríkasta kona Danmerkur:
Erfði skó föður síns
„Fjölskyldan býr enn á
suður-jótlandi og umgengst
ekki annað ríkt fólk í landinu
– nema það eigi hesta.“
Hanni Toosbuy Kasparzak er ríkasta kona Danmerkur en talar aldrei um peninga.