Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Qupperneq 91
SKÚLI GUÐJÓNSSON:
Lifandi tunga eða dautt mál?
„Hinir útvöldu og fólkið"
Það er rótgróin trú meðal alþýðu, að einungis hámenntaðir
menn, gæddir mikilli snilligáfu, séu þess umkomnir að rita tungu
þjóðarinnar svo, að viðunandi sé.
Þegar lítt menntaðir, andsnauðir menn tapa trúnni á eigin van-
mátt í svo stórum stíl, að þeir taka sér penna í hönd og færa í letur
það, sem þeim liggur efst í huga, er venjulega litið á slíkt sem
væga tegund geðbilunar.
Það er ekki að ófyrirsynju, að þessi trú er orðin svo rótgróin
sem raun ber vitni.
Blaðamenn, fræðimenn og rithöfundar hafa þegar tekið að sér
að færa í letur allt, sem fólk þarf að lesa, — og jafnvel mikið meira.
Væri það þá ekki að bæta gráu ofan á svart, — nokkurs konar ó-
heiðarleg samkeppni við andans menn, — ef alþýðan færi að troða
því, sem henni lægi á hjarta, inn í blöð og bækur, sem þegar eru
orðin svo full, að út úr flóir?
Algengasta lesning fólks nú á dögum eru blöðin. Blaðamenn rita
vfirleitt á þá lund, að enginn góðfús lesari efast um, að þeir viti
alla hluti. Frómir og hrekklausir skoðanabræður þeirra teyga í sig,
líkt og spenvolga nýmjólk, allt sem þeir láta á þrykk út ganga. Það
getur hver og einn stungið hendinni í eigin barm og athugað, hvort
slíkt er ekki þægilegra en að berjast við grufl upp á eigin býti.
í annan stað skrifa fræðimenn stórar og þykkar bækur um allt,
sem fólk þarf að vita deili á, ef það á að vera menntað og vel upp-
lýst. Eigi fræðibók að vera góð og veigamikil, þarf hún að vera
„þung aflestrar“, þ. e. a. s., lesandinn verður að beita öllum lífs og
sálar kröftum, — líkt og hann væri að vaða klofdjúpan snjó, —
meðan hann er að þrælast gegnum hana. Hver alþýðumaður sér það
eins og svart á hvítu, að slíkar bækur myndi hann aldrei geta skrif-
að, þó ekki væri nema vegna þess, að málið á þeim er svo ólíkt því
máli, sem hann talar, að það er nærri því eins og annað tungumál.