Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Síða 94
268
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Það er sannfæring mín, sem ég, af skiljanlegum ástæðum, vil
ekki rökræða, að í einkabréfum alþýðufólks, þeim er rituð eru í
hjartans trúnaði, myndi margt það finnast, sem kallað yrði „sígild
Iist“, ef það sæist á prenti í verkum frægra rithöfunda.
Þegar öll kurl kæmu til grafar, myndi kannske hið fornkveðna
sannast víðar en margan grunar: Guð opinberar það smælingjum,
sem vitringum er hulið.
„Sjó, saklaus er ég"------
Nú munu menn spyrja:
En veiztu þá ekki, maður minn, að málfari fólksins er alltaf að
hraka? Fyndist þér ekki, að skörin tæki að færast upp í bekkinn,
ef farið yrði að taka það til fyrirmyndar ritmáli?
Jú, mikið rétt. Það hefur nú mátt sjá minna grand í mat sínum
en málvöndunaræðið, sem gengið hefur yfir þetta vesala land, líkt
og Finnagaldur eða Kiljanshatur.
Við skulum láta það liggja á milli hluta, hvort málfar fólksins
er komið jafnnálægt glötunarinnar barmi sem málvöndunarmenn-
irnir vilja vera láta. En ef svo er, verður að skrifa mestan hluta
þeirrar spillingar á reikning þeirra, sem rita fyrir fólkið. Það liggur
í augum uppi, ef málfar alþýðu spillist í réttu hlutfalli við vaxandi
áhrif bóka og blaða, hlýtur eitthvert samband að vera þar á milli.
Við skulum fyrst athuga blöðin.
Hvert blað hefur sinn slagorðaforða. í hvert skipti sem blað
kemur út, er slagorðunum raðað upp, líkt og leikfangakubbum, með
dálítið mismunandi hætti. Þetta sköpunarverk ber svo hið yfirlætis-
lausa nafn: Leiðari. Sennilega er það valið með hliðsjón af því,
að því er ætlað að leiða villuráfandi lesanda í allan sannleika.
Mér er nær að halda, að með nokkurri æfingu megi þekkja það
á mæli manna, hvaða tegund leiðara þeir lesa aðallega og taka
ástfóstri við.
Ég hef dálítið gluggað að því, hversu þessu er háttað, þar sem
ég þekki til.
Ég umgengst aðallega fólk, sem les eina tegund leiðara. Þegar
það rabbar saman um daginn og veginn, talar það hið upprunalega
mál sveitafólksins, tært og ómengað. Fari það aftur á móti að velta