Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Síða 95
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
269
fyrir sér einhverjum dálítið snúnum viðfangsefnum, enda þótt ó-
pólitísk séu, er ekki laust við, að örli á leiðaraslagorðum annað
veifið. Beri svo hrein pólitísk mál á góma, má ganga að því vísu,
að leiðaraslagorðin velti blóðhrá af vörum þess, eins og t. d. dýrtíð,
öngþveití, upplausn, hrun og ýmislegt annað, sem mest er þvælt
um þessar mundir á því pólitíska bókmenntasviði, sem hér um ræðir.
Vitanlega hef ég enga ástæðu til að ætla, að ástandið sé betra á
hinum bæjunum, þótt mig bresti kunnugleika til að taka dæmi
þaðan.
Mál fræðimanna er yfirleitt ekki létt í vöfum til daglegrar notk-
unar, enda torlært. Þó heyrir maður því stundum bregða fyrir í
mæltu máli, en það stingur þá svo átakanlega í stúf við hið eðlilega
málfar fólksins, að mann hlýtur að reka í rogastanz, og þegar mað-
ur áttar sig, verður manni það venjulega á að reka upp skellihlátur.
Annars er ævinlega sagt um þá, sem lenda út í þess háttar ófæru,
að þeir séu að gera sig merkilega eða digra.
Rithöfundar semja verk sín á ýmsa lund. Sumir virðast liggja
undir áhrifum blaðamanna og ná sennilega svipuðum árangri meðal
lesenda sinna. Ýmsir hinna yngri rithöfunda virðast eiga við mikla
erfiðleika að etja, meðan þeir eru að leita sér að stíl. í stað þess
að byrja blátt áfram og yfirlætislaust, með því að rita sitt eigið mál,
hafa þeir lent út í þeirri ógæfu að stæla einhvern stóran meistara.
En þegar þeir uppgötva svo einhvern góðan veðurdag, að svo má
ekki lengur til ganga, taka þeir hliðarhopp út frá meistaranum og
taka til að leita að stílnum, sem guð hafði fyrirhugað þeim. En það
gengi sannarlega kraftaverki næst, ef þeir hefðu blessunarrík áhrif
á málfar fólksins, meðan þeirra eigin heimilishagir eru svo örðugir.
Rétt og skylt er að minnast þess, að verk nokkurra höfunda vitna
um það, að þeir hafa hlerað eftir tungutaki alþýðu. Orðtök, sem
gripin eru úr mæltu máli og færð í letur, fá nýtt líf, þegar þau koma
til fólksins úr deiglu höfundanna. Það fer að eigna sér höfundana,
sem hafa sýnt því þann sóma að færa í letur brot af þess eigin máli.
En svo vaknar það kannske upp við það einn góðan veðurdag, að
höfundarnir þurfa ekki lengur á máli þess að halda. Þeir hafa
fundið sjálfa sig, — eins og það er kallað, fundið sitt eigið mál, —
ólíkara máli fólksins en nokkuð annað, sem sézt hefur á prenti.