Tímarit Máls og menningar - 01.12.1945, Síða 30
210
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
indalega íslenzka orðabók er ná skuli yfir tímabilið frá því er prent-
aðar bækur hefjast á íslenzku (1540) þangað til nú. Þetta er djörf
og stórfengleg hugmynd. Ennþá er verkið aðeins á fyrsta undir-
búningsstigi og vitneskja um það óljós hér. Reynsla utan úr lönd-
um sýnir að eigi slíkt fyrirtæki að lánast, veitir ekki af heilli sveit
valinna starfsmanna undir gallharðri og einbeittri stjórn. Fáist slík
sveit og verði ekki reynt að klípa utan af nauðsynlegum tilkostnaði,
má gera sér vonir um að orðabókin verði langl komin undir lok
þeirrar aldar sem nú stendur yfir. Þörfin á handorðabók er vita-
skuld engu síður knýjandi þótt stórvirki eins og þetta sé á döfinni.
Annars má skjóta því inn hér að íslenzkum orðabókaþörfum hefur
til þessa veriö skammarlega illa fullnægt nærri því í öllum greinum.
Við eigum orðabækur úr dönsku, ensku og þýzku á íslenzku (en
enga úr frönsku, að heitið geti). Allar eru þessar bækur smáar og
gallaðar, einnig þýzk-íslenzka orðabókin, sem þó er þeirra nýjust og
bezt. Það er bráðnauðsynlegt að hafizt verði handa um gerð nýrra
og stórum endurbættra oröabóka úr erlendum tungum. Okkur nægja
ekki lengur einhver kríli sem aðeins taka upp hrafl úr oröaforð'a
málanna, stundum meira að segja með röngum og villandi þýðing-
um. Ekki tjáir heldur annað en að viðurkenna þá staðreynd og haga
sér eftir henni, að íslenzka er víða steypt í öðru móti en meginlands-
málið, svo að oft er vonlaust að setja sér það mark að þýða orð með
orði, heldur verður að sýna mörg mismunandi dæmi þar sem um-
skiptilegar þýðingar eiga við.
Efniviðurinn í rannsókn íslenzks máls fyrr á öldum er geysi-
mikill og enn ekki hagnýttur nema að litlu leyti. Fjöldi margvís-
legra gagna bíður þar könnunar áður en grundvöllur sé lagður að
þeirri sögu tungunnar sem okkur hlýtur að dreyma um við lilið
bókmenntasögunnar. Hér skal ekki fariö frekara út í þá sálma. En
eitt er það verk, sem enga bið þolir og hvergi verÖur unnið nema á
íslandi sjálfu, og það er könnun íslenzks málfars eins og það er nú
í dag í mismunandi landshlutum. Það er segin saga í öllum löndum
að þar sem kontin er skólafræösla og útvarp og ferðalög og þeys-
ingur, taka héraðasérkenni í máli óSum að hverfa og allt verður að
einum sambreyskingi. Víðs vegar um landið þarf að leita uppi gam-
alt fólk, helzt það sem lengst af hefur haldið sig heima fyrir og