Tímarit Máls og menningar - 01.12.1945, Page 65
GÍSLI BRYNJÓLFSSON
245
sér í fylkingu. Hann ætlar þá auðsjáanlega að fylgja foringjanum
í frelsisbaráttunni, ekki til að draga úr sókninni og deyfa eggjarn-
ar, heldur sem eldhuginn, er brýnir til dáða. Kvæðið ber þó með sér,
að Gísli gerði sér þess fulla grein, livað slík barátta mundi kosta.
Honum var það ljóst, að menn yrðu að fórna ævilöngu starfi fyrir
málstaðinn, án annarra launa en þeirra að hafa unnið ættjörð sinni
gagn og lagt hönd að því að leysa hana úr viðjum. En slíkt taldi
Gísli þá beztu launin. Því kvað hann um mennina, sem hníga að
velli í baráttunni án þess að hafa séð inn í fyrirheitna landið:
„Þeim frói von sú, fögur og traust,
þeir falla aldrei' notalaust.“
Þegar Gísli kom aftur til Kaupmannahafnar úr íslandsferðinni
haustið 1847, voru ýmsar blikur á lofti. Alþýða manna var víðast
hvar orðin þreytt á óstjórn þeirri, sem ríkt hafði viða um lönd á
undanförnum árum. Andrúmsloftið á meginlandi Evrópu var ekki
ólíkt því, sem stundum er á undan þrumuveðri. Allir finna, að eitt-
hvað nýtt og magni þrungið liggur í loftinu og getur dunið yfir,
þegar minnst varir. Þessu lýsir Gísli svo:
„Atað er kyn og óhreint blóð,
í ánauð lýðir stynja,
þrungin eitri þokuslóð -—
þruma verður að dynja.
Vaknið því úr doða-dúr,
dróttir orkuvana!
Þvætti burtu skrugguskúr
skömm og harðstjórana!
Þruman kom. Óveðrið skall yfir. Tuttugasta og þriðja dag febrú-
armánaðar 1848 hófst uppreisn í Parísarborg, og næstu daga var
barizt látlaust á götunum. Byltingarmenn báru sigur úr býtum í
viðureigninni. Konungur varð að flýja land og lýðveldi var sett á
stofn. Að vísu tókst alþýðu manna ekki að færa sér þessa sigra í
nyt nema að litlu leyti. En þrátt fyrir það hafði byltingaraldan hin