Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Síða 25
ÞÓRBERGURÞÓRÐARSON:
Til austurlieims vil ég lialda
i
Á mínum yngri árum, þegar lausnir á svokölluðum ráðgátum tilver-
unnar voru ungum mönnum jafnvel meira virði en matur og drykkur,
— á þeim tímum hinna miklu opinberana sökkti ég mér niður í lítið
kver, sem var ættað alla leið austan úr Kínaveldi. Það hét á kínversku
Tao Teh King, í þýðingu á íslenzku: Bókin um veginn. Höfundur henn-
ar var kínverski vitringurinn Lao Tse. Hann var fæddur 604 fyrir
Krists burð. Margar setningar „hins dulda spekings", eins og Kínverjar
kalla hann, opinberuðu mér mikil sannindi, og sum spakmæli hans
urðu mér ógleymanleg.
í Tao Teh King var þó sérstaklega eitt spakmæli, sem ég las með
skýrara skilningi en flest önnur, og það skildi aldrei við mig eftir það.
Það hljóðaði svo: „Að stjórna stóru ríki er eins og að sjóða litla fiska.“
Eg hafði sem sé verið kokkur á fiskiskipi. Þá sauð ég tólf sinnum á
viku í 14 mánuði stóra og litla fiska, og mér var það ennþá minnisstætt,
þegar ég las Bókina um veginn mörgum árum eftir kokkamennskuna, hve
erfitt var að sjóða litlu fiskana. Stóru fiskarnir komu venjulega í heilum
stykkjum úr pottinum, þegar fært var upp úr. En af litlu fiskunum sást
stundum lítið annað eftir en hvítt mauk og beinajastur, og karlarnir,
sem höfðu látið þá í soðið, kölluðu mig skítkokk, eiturbrasara og ná-
hund.
Ég sá, að spakyrðin í Bókinni um veginn sögðu frá sömu lífsþrautum
í kokkamennsku og ég átti við að stríða. Svona hafði það þá líka verið
í fylkinu Kau austur í Kína hartnær 2200 árum áður en litlu fiskarnir
fóru í mauk hjá mér suður í Eyrarbakkabugt. „Mannshöfuð er þungt,“
en samt verðum við að halda áfram að læra.