Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Blaðsíða 56
262
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
höfuðskepnu. Kannski var það langvarandi dvöl í námunda við eld-
spýjandi fjall, eitthvað Gunung Api, ásamt sívaxandi kulda, sem kenndi
apamönnunum að meta yl eldsins. Nóg var af virkum eldfjöllum í heim-
kynnum þeirra í byrjun kvartertímans. En eitt er að þykja notalegt að
ylja sér við eld og annað að ná valdi yfir honum, læra að tendra hann.
Um það, að þetta skref var einnig stigið, hygg ég, að mestu hafi ráðið
það, að apamaðurinn var löngu orðinn vanur að meðhöndla steina,
kasta þeim og berja þeim saman, en af því hafa oft hlotizt gneistar, sem
stundum urðu að báli.
Hvernig sem þetta hefur nú gerzt, þá stóð þessi tvífætta skepna öðr-
um betur að vígi að mæta fimbulvetrum ísaldarinnar vegna þess, að
hún hafði tekið eldinn í þjónustu sína, og þegar hún síðar á ísöldinni
komst upp á að skýla sér með húðum, varð aðstaða hennar enn betri.
Með hverju jökulskeiði fækkaði þeim skepnum, sem við hana gátu
keppt, og svo var komið í lok fjórða og síðasta jökulskeiðsins, fyrir um
20.000 árum, að leiðin til heimsyfirráða lá henni opin. Án ísaldarinnar
er óvíst, að hún hefði nokkru sinni náð þeim yfirráðum. En hversu
lengi hún heldur þeim, er nú fyrst og fremst undir henni sjálfri komið.