Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Síða 37
TIL AUSTURHEIMS VIL ÉG HALDA
243
sýnd sú tillitssemi að fylgjast með hæðarmæli, sem festur er á þilið
fremst í farþegasalnum. Flughæðin getur verið mismunandi, sennilega
eftir veðurfari og landslagi, máski líka áfangalengdum. Á rnilli Helsinkí
og Leningrað var hún 950 til 1100 metrar.
Klukkan eitt og 48 mínútur settumst við á flugvöllinn í Leningrað.
Þar var loft stórskýjað. Þar fór fram allnákvæm tollskoðun, en settleg
og hæversk.
Þegar klukkan var 17 mínútur yfir þrjú, flugum við frá Leningrað
á veg til Moskva. Á þessari leið var okkur borinn matur og te í flug-
vélinni. Við flugum ýmist í þoku eða í sólskini ofar þoku, í 1990 til
2030 metra hæð. Mjög sjaldan grillti til jarðar fyrr en við fórum að
nálgast Moskva. Þá aftur þorp, akrar, gras og skógar. Enginn Skeiðar-
ársandur, ekkert Hekluhraun. Níu mínútum fyrir klukkan sex, Helsinkí-
tími, renndum við okkur niður á flugvöllinn fyrir utan Moskva. Flugið
þangað frá Helsinkí hafði tekið okkur 4 tíma og tvær mínútur.
Elskulegir Kínverjar úr sendiráðinu í Moskva tóku á móti okkur á
flugvellinum, og klukkan sjö mínútur yfir sex vorum við komin inn á
Hotel National, ágætt hótel, í grennd við Rauðatorgið. Þar fengum við
mjög góð herbergi og allar máltíðir fyrsta flokks. En nú fór sem oftar á
austurleiðinni, að kvöldið varð styttra en ætla mætti. Á flestum gististöð-
um urðum við að flýta klukkunni svo og svo mikið. Þessu olli sá hreyf-
ingarmáti hnattarins að snúast frá vestri til austurs. Okkur vanst þó
tími til að ganga nokkra stund um Moskvaborg eftir kvöldverðinn á
Hótel National. Loft var alskýjað, dálítil gola og 7 stiga hiti á Selsíus
klukkan ellefu um kvöldið. En 7 stiga hiti á þeim stöðum, sem sunnar
liggja en ísland, er svalari á kroppnum en hér heima. Því mun valda
meiri raki í lofti.
VI
Næsta dag héldum við kyrrir í Moskva. Þá var hálfskýjað loft og
sólskin annað veifið og fremur hlýtt í veðri en kalt. Ég klæddi mig
á tíunda tímanum. Svo tókum við okkur langan göngutúr um borgina.
Við gengum um Rauðatorgið og gegnum grafhýsi Lenins. Þar stóð bið-
röð fyrir utan til að líta ásýnd meistarans. Hann sveik aldrei fólkið.
Svo gengum við all-langa leið beggja megin Moskvafljótsins. Við skoð-