Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Blaðsíða 38
Tímarit Máls og menningar
sé að allir þessir íslendingar skuli farnir að skrifa leikrit. Það væri ranglátt
að setja allt leikhúsfólk undir einn hatt og yfirleitt sýnist mér forráða- og
listamenn Þjóðleikhússins hafa farið sér hægar í þessum efnum en starfs-
bræður þeirra hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Eg hef sterkan grun um að goð-
sögnin um blóma íslenskrar leikritunar sé að mestu leyti runnin upp þar
á Tjarnarbakkanum og að á bak við hana leynist ákveðnir hagsmunir sem
ekki sé beinlínis hægt að telja listræns eðlis. Að sjálfsögðu verð ég að slá
hér aftur þann varnagla sem ég sló í sambandi við textana; nær engar
tilraunir hafa verið gerðar til að rannsaka rekstur leikhúsanna og heildar-
stefnu þeirra á seinni árum. En eins og áður held ég ekki að við megum
láta þetta ástand fæla okkur frá því að varpa fram tilgátum, sem við getum
beitt á rannsóknarefnið í heild og síðar endurskoðað í ljósi aukinnar þekk-
ingar.
Það er í Iðnó sem bylgjan tekur að rísa á síðasta áratug. Þar eru leikrit
Jökuls sýnd og þar hlýtur Dúfnaveislan einnig ágætar viðtökur, ekki síst
vegna ógleymanlegrar túlkunar Þorsteins O. Stephensens á pressaranum.
Laxness hefur að vísu ekki skrifað fleiri leikrit síðan, en Leikfélagsmenn
fylgdu eftir vinsældum hans með leikgerðum á nokkrum skáldsagnanna.
Um svipað leyti fer Jónas Arnason einnig í gang og ná sumir þeirra þjóð-
legu gamanleikja, sem hann semur á næstu árum, miklum vinsældum. Síðar
koma svo Birgir Sigurðsson og Kjartan Ragnarsson til sögunnar. Eins og
fram hefur komið virðist mér að listrænn árangur þessarar þróunar gæti
verið markverðari en raun hefur orðið á.
En lítið leikhús þarf að hyggja að fleiru en listrænum árangri. Leikhús
er kostnaðarsamt fyrirtæki, og þó að það fái opinbera styrki tryggja þeir
einir ekki fjárhagslega afkomu þess, a. m. k. ekki hér á landi. Leikhúsin
verða því að gæta þess að fjöldi viðskiptavina, þeirra sem vilja kaupa þá
vöru sem leikhúsið hefur á boðstólum, hrapi ekki niður úr öllu valdi og
í verkefnavali sínu og vinnubrögðum hljóta þau því ævinlega að taka
nokkurt mið af þörfum og kröfum neytenda. Opinberar fjárveitingar koma
vissulega í veg fyrir að leikhúsin verði algerlega ofurseld duttlungum
markaðarins og geti alls ekki tekið á sig þá áhættu sem fylgir listrænni
tilraunastarfsemi sem ekki höfðar til þorra fólks. En þessar greiðslur eru
ekki hærri en svo að leikhúsin verða að taka verulegt tillit til ríkjandi
smekks, eigi ekki að reka þau með því meiri halla. Það er því hætt við að
þau verði að vega salt á milli sölumennsku og listrænnar og félagslegrar
framsækni. En það þarf ekki mikið til að glata jafnvæginu, og geri forystu-
28