Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Qupperneq 46
Tímarit Máls og menningar
jarðveginum og brjóta nýtt sáðland friðar, jafnréttis og réttlætis meðal
manna. Oneitanlega eru þó nokkrir karlar og konur sem með mælsku sinni,
skrifum og sannfæringu hafa hrifið fólk með í friðarbaráttuna. Meðal þeirra
er ástralski barnalæknirinn Helen Caldicott, sem undanfarin ár hefur helgað
líf sitt baráttunni fyrir friði og afvopnun.1 Hún gengur veg upplýsingarinn-
ar, ferðast borg úr borg, land úr landi, með reynslu sína, þekkingu og trú á
lífið í veganesti. Það sem fer hér á eftir er m.a. byggt á erindum hennar og
málflutningi.
Arið 1979 varð kjarnorkuslys í Harrisburg í Bandaríkjunum. Allt kælivatn,
sem notað var til að kæla kjarnakljúfinn rann út og varnarkerfið bilaði.
Milljónum lítra af geislavirku vatni var hellt í ána Susqehanna og geislavirk-
um lofttegundum var sleppt út í andrúmsloftið. Um tíma var hætta á að allt
springi í loft upp, en sem betur fór tókst að afstýra því. Afleiðingarnar eru
ekki komnar endanlega í ljós, því að sögn Helen Caldicott má búast við
stóraukinni tíðni krabbameins, hvítblæðis, vansköpunar og annarra sjúk-
dóma sem geislavirkni fylgja á næstu 5 — 15 árum. I West Valley í New
Yorkríki í Bandaríkjunum var kjarnorkuver í einkaeign. Það var lagt niður
fyrir nokkrum árum vegna taps og ríkið vinsamlegast beðið að taka
afleiðingunum, 600.000 gallonum af geislavirkum úrgangi sem geymdur er í
þró. Enginn veit hvernig á að fjarlægja hann eða gera hann óskaðlegan og
mikil hætta er talin á að annað tveggja gerist; að úrgangurinn síist út í
jarðveg og grunnvatn, eða að svo mikil orka losni úr læðingi að valdið geti
sprengingu. Á botni San Fransiscoflóans liggja 45.000 tunnur fullar af
úrgangi, þar á meðal plútoníum, sem er geislavirkasta efni sem til er. Talið er
að þriðjungur til helmingur tunnanna sé sprunginn og efnin síast hægt og
bítandi út í hafið. Greenpeace samtökin hafa tekið myndir af sprungnum
eiturefnatunnum á botni Atlantshafsins og stöðugt berast fregnir af skipum
sem losa úrgang í hafið. Síðast í þessari upptalningu skal sagt frá því að árið
1957 varð kjarnorkuslys í Ural í Sovétríkjunum, sem vandlega er þagað
yfir.2 Þegar Helen Caldicott var þar á ferð sá hún myndir af svæðinu fyrir og
eftir slysið. Þorp, bændabýli og vegir þurrkuðust út, sem bendir til þess að
þar hafi orðið sprenging.
Stöðugt eru reist ný kjarnorkuver til raforkuframleiðslu og ekkert lát er á
framleiðslu kjarnorkuvopna, þrátt fyrir þann ægilega eyðileggingarmátt sem
kjarnorkunni fylgir. Hvernig byrjaði þetta allt saman og hvernig verður
hægt að rjúfa vítahring vígbúnaðarins?
Sagan segir að þegar vísindamennirnir sem unnu við Manhattanáætlunina
luku verki sínu með smíði kjarnorkusprengjunnar, hafi þeir skrifað bréf til
36