Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Blaðsíða 56
Tímarit Máls og menningar
gaflinn að hann lagðist út. Gaflinn lá á hliðinni útá mölinni og
bragginn gapti einsog hellir út í skammdegið. Svo þegar hann var
búinn að sofa úr sér reiðina og orðið kalt fór hann út, rétti gaflinn
upp og festi hann í gapinu. Berhentur. Einn.
Oryrki? Ekki var hann handalaus með kryppu í hjólastól. Tommi
gamli sagði stundum að hann stigi ekki í vitið, en fæstir vissu hvað
væri að honum, varla einu sinni Gréta konan hans; það var þá frekar
að það væri eitthvað að henni, hún var ýmist ofsakát eða ægilega
niðurdregin. Undarlegt. Einu sinni ætlaði hún að hengja sig útá
snúrustaurnum en Lína gamla sá það útum gluggann og hljóp út og
skipaði henni að hætta þessari andskotans vitleysu. — Nú hefurðu
farið öfugt frammúr rúminu í morgun! Svo fór Lína með konuna inní
eldhús í Gamla húsinu til að róa hana. Það undarlega var að þegar
þetta gerðist var allt í himnalagi. Ekkert að svosem. Veðrið var gott.
Börnin frísk. Hreggviður hafði ekki drukkið í rúman mánuð og var
nýorðinn Reykjavíkurmeistari í sleggjukasti. En svo var það kannski
tveimur mánuðum seinna þegar allt var komið í vitleysu og svað:
bragginn einsog íshús, báðir krakkarnir með bronkítis, Hreggviður
kolóður, mölvandi allt, drekkandi einsog berserkur og Gréta sjálf
orðin kinnfiskasogin og grá; þá var hún ofsakát. Sveif um í sæluvímu.
Talaði um húsið sem þau ætluðu að byggja. Einbýlishúsið. Og hún
ætlaði að láta gera við tennurnar í sér. Syngja inná plötu. Þetta var
hún að segja heimilisfólkinu í Gamla húsinu. Hún hafði nefnilega
verið söngkona í danshljómsveit áður en hún kynntist Hreggviði.
Svo tók hún tvö máttleysisleg spor á eldhúsgólfinu og hló skærum
dillandi hlátri. Allir brostu. Meira að segja Lína gamla brosti. Gréta
hló svo smitandi og hjartanlega. Meðan þronkítishviðurnar heyrðust
úr bragganum og alveg inní eldhús.
★
Strákarnir ætluðu að sýna Hreggviði myndina, en áðuren þeir gátu
bankað á braggahurðina snaraðist heljarmennið út með íþróttatösku í
hendinni, á leiðinni útá Káravöll þarsem ljúka átti seinna um daginn
minniháttar móti í frjálsum sem staðið hafði yfir helgina. Hreggi var
þungur á brún en lifnaði allur við að sjá lotninguna í svip strákanna
sem hann vissi að voru hans dyggustu, jafnvel einu, aðdáendur. Hann
kíkti snöggt á myndina.
46