Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Page 74
Tímarit Máls og menningar
tók voru þeir að sniglast um hverfið í kringum Hreggviðsbragga og
reyndu að ná einhverju sambandi við rafmagnað andrúmsloftið sem
þeim fannst hljóta að ríkja innandyra en heyrðu ekki neitt nema
einhverja grafarþögn sem öðru hvoru var rofin af marri þegar gengið
var um gólf af svo miklum þunga að bragginn virtist vera að kikna.
Svo fóru þeir að þvælast um og atast með fleiri krökkum í
bílhræjunum hans Hlyns en þegar myrkt var orðið dró þá eitthvað
aftur að Hreggviðsbragga þarsem þeir lögðu eyrun að næfurþunnum
veggnum en heyrðu ekki neitt nema sömu dimmu þögnina.
I skoti við kamarinn var mölin svört og lífræn, líklega vegna þess
að Shellfatan með setunni var lek og innihald hennar seytlaði niður á
milli gólffjalanna, þegar félagarnir voru að læðast þar rákust þeir á
veru sem lá uppað kamarveggnum. Þeir héldu fyrst að þetta væri
kannski Hreggviður, en það var þá bara Diddi bróðir hans Grjóna.
Grjóni kippti honum á fætur og hristi hann til, en Diddi brá við hart
og þreif rýtinginn úr Skátabúðinni sem Baddi bar ennþá við beltið.
Diddi hljóp af stað með hnífinn á undan sér en komst ekki langt því
félagarnir stukku á hann og neyddust til að slá hann og berja til að ná
af honum hárbeittu vopninu, áður en það gerðist hafði Grjóni skorist
í lófanum en hann harkaði það af sér einsog annað og tók öskrandi
drenginn á öxlina og bar hann heim í braggann til mömmu þeirra sem
beið þar áfengislyktandi og áhyggjufull.
I eldhúsi Gamla hússins sat Gréta konan hans Hreggviðs með
krakkana og keðjureykti sígarettur og talaði óðamála um fjar-
skyldustu málefni en þorði ekki heim vegna þess að henni fannst
Hreggviður vera í svo undarlegu skapi.
Baddi lagðist í sófann inní stofu og hlustaði á Tomma gamla sem
var að segja Danna frá dansmey sem hann hafði kynnst í Grikklandi
þegar hann hafði verið hernuminn af Þjóðverjum í fyrri heimsstyrj-
öldinni, Baddi tapaði þræðinum einhversstaðar í hliðargötum
Pýreusborgar, því þá var hann sofnaður, krímugur og úfinn og ennþá
í gúmmískónum.
64