Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Page 80
Tímarit Máls og menningar
tekið fram), og nefnir einkenni á ljóðagerð þeirra. Hann tekur síðan fram
að fleiri ljóðskáld hafi lagt sitt af mörkum til ljóðagerðar tímabilsins og
segir:
Among them should be mentioned Jóhann Hjálmarsson (b. 1939), Dagur
Sigurdarson (b. 1937), Bödvar Gudmundsson (b. 1939) and the women poets
Vilborg Dagbjartsdóttir (b. 1930), Nína Björk Árnadóttir (1941) and
Steinunn Sigurðardóttir (b. 1950).
(Leturbreyting hér og síðar er greinarhöfundar.)
Karlarnir eru „the poets“, konurnar „the women poets“, og svo mikið er í
húfi að hafa konurnar sem hóp út af fyrir sig að aldursröðinni, sem
upptalningin að öðru leyti fer eftir, er breytt.
A svipaðan hátt reka konurnar lestina í kaflanum um íslenska sagnagerð,
en sá er munurinn að þar fá þær smáumfjöllun. Eftir að rætt hefur verið um
merkustu rithöfunda tímabilsins, sem allir eru karlar (án þess að það sé
sérstaklega tekið fram), er vikið að þeim Jakobínu Sigurðardóttur og Svövu
Jakobsdóttur. Eru þær kynntar í einu lagi sem „women writers", og
Jakobína að auki sem „a farmers wife“. Aldursröð höfundanna, sem að öðru
leyti ræður byggingu greinarinnar, er enn riðlað. Um Jakobínu hefði að
sjálfsögðu átt að ræða um leið og Olaf Jóhann og um Svövu á undan
Guðbergi, þ.e.a.s. ef þær hefðu verið taldar til rithöfunda fremur en til
kvenna.
Það er ákaflega athyglisvert að bera saman mat Sigurðar á verkum
(karl)rithöfundanna annars vegar og kvenrithöfundanna hins vegar. Sögur
Jakobínu, „these novels by a farmer’s wife in the northeast of Iceland“, eru
einna merkastar fyrir það að þær „testify to a living literary tradition among
the ordinary people". Um leikrita- og smásagnagerð Svövu hefur hann það
eitt að segja að hún sé þar „specializing in the predicament of women in
modern society", og er af þessum orðum augljóst að hann lítur á efnið
konur sem eitthvað afbrigðilegt og án almennrar skírskotunar. Til sláandi
samanburðar er hliðstæð málnotkun í niðurstöðuorðunum um Thor Vil-
hjálmsson, þar sem sagt er að hann sé „a lyrical writer, dealing with the
predicament of „modern man“ in no particular locality“. Thor „fjallar um“,
Svava „sérhæfir sig“. Hann tekur fyrir stöðu nútímamannsins, og verður
orðið „man“ hér tæpast skilið öðruvísi en í merkingunni maður yfirleitt án
kyngreiningar. Hún tekur fyrir stöðu nútímakonunnar, sem litið er á sem
sértækt fyrirbrigði og eitthvað allt annað en „modern man“.
Karlrithöfundarnir fjalla um algild efni, svo sem tilvist mannsins og leit
einstaklingsins að sjálfum sér, en engar sambærilegar umsagnir má finna um
kvenrithöfundana. Verk Guðbergs t.a.m. „explore the various manifesta-
tions of the „anti-life“, the wretched and pitiful existence we accept“, og
70