Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Blaðsíða 113
Örn Ólafsson:
Bókmenntaviðhorf sósíalista
Fyrir nokkru birtist hér í TMM óvenjuskýr boðskapur um hvernig bók-
menntir eigi að vera. Það er grein Dagnýjar Kristjánsdóttur og Þorvalds
Kristinssonar: „Þetta er ekki list“ (TMM 1981, 3. h., skst. DÞ hér á eftir).
Þessi boðskapur er útbreiddur meðal sósíalista og víðar. Raunar sýnist mér
hann byggjast á íhaldsviðhorfi, þótt í rauðu gervi sé. Og kjarni hans er:
„Bókin er semsagt aftur orðin baráttutæki — og þá skyldi maður ætla að
sósíalistar gleddust og héldu veislu — en sú er nú aldeilis ekki raunin." (bls.
321) Af hverju áttu sósíalistar að gleðjast? DÞ: „Fátt þurfum við meira þessa
stundina en nokkra leiðsögn um þann sundraða veruleika sem heldur okkur
föngnum. Og slíka leiðsögn má m.a. sækja í bókmenntir, hvort sem borg-
araleg bókmenntastofnun kallar þær list eða ekki.“ (bls. 324)
Við fyrstu sýn virðist þetta kannski mjög róttæk stefna. En svo fer hún að
minna óþægilega mikið á boðskap skáta, KFUM-manna og viðlíka afla um
hollar bókmenntir. Það er nefnilega sígilt viðhorf menningarsnauðra smá-
borgara að bókmenntir hafi fyrst og fremst gildi sem tæki — eigi raunar
engan rétt á sér nema þær séu sannar og siðbætandi. Mig minnir að Halldór
Laxness reki þetta viðhorf til samfélaga þar sem fólk átti yfirleitt aðeins eina
bók — Heilaga ritningu — gleypti hana í heilu lagi og trúði öllu (sbr.
orðtakið: „það stendur einsog stafur á bók“). Nú setja ýmsir sósíalíska
fræðslu og hvatningu í stað þrælasiðferðis KFUM og skáta. En viðhorfið til
bókmennta er óbreytt: þær eiga að móta lesendur einsog kökudeig væru.
Annarsvegar er alráður höfundur, hinsvegar óvirkir viðtakendur. Hvað er
íhaldsviðhorf ef ekki þetta? Enda hafði t.d. Karl Marx algerlega andstæð
viðhorf: „Rithöfundur lítur enganveginn á verk sín sem Ueki. Þau eru
markmib í sjálfum sér, þau eru svo fjarri því að vera honum eða öðrum tæki,
að hann fórnar tilveru sinni fyrir tilveru þeirra, þurfi þess með.“ 11 Það er því
hreint ekki „sígild krafa sósíalista að bókmenntirnar leggi baráttunni lið“,
einsog DÞ halda fram (bls. 322). Annað mál er að stalínistar hentu þennan
þjónustuboðskap á lofti einsog annan smáborgaraskap, enda er æðsta
hugsjón þeirra að ráðskast með fólk. Það er líka auðþekkt ættarmótið á
þessu viðhorfi — að hlutirnir hafi bara gildi í þeim mæli sem þeir eru
hagnýtir, og að allt eigi að þjóna einum tilgangi. Birtist ekki þar í formi
hugsjónar grundvallarlögmál auðvaldsþjóðfélagsins; að allt skuli sveigt
undir einn tilgang — eftirsókn hámarksgróða? Vissulega búa sósíalistar í
þessu þjóðfélagi og þurfa að taka mið af því í byltingarbaráttu sinni. En
103