Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Blaðsíða 47
Raul Brandao
Leyndardómur trésins
Limskorið var það og þurrt, og aldin þess annað hvort lík eða hrafnar.
Enginn mundi hvort á því hafði vaxið lauf eða hvort það bar blóm, hið
risavaxna tré sem öldum saman hafði verið notað fyrir gálga. Engan
langaði að leggjast til hvíldar í skugga þess. Jafnvel sólin forðaðist að
skína á hið geigvænlega, hnarreista tré sem öldum saman hafði verið
notað fyrir gálga.
Tréð reis framan við konungshöllina sem reist hafði verið úr dökkum
steinblokkum, og aðeins konunginum sem í var nakin og harmsöguleg
sál eins og í trénu, fór að þykja vænt um það, hið raunalega tré sem um
aldir hafði verið gálgi.
Hver var hinn hægi en þrautseigi sjúkdómur sem dró konunginn til
dauða? Konungurinn unni aðeins sólarlaginu, þeirri stund þegar dags-
ljósið slokknaði, og fortíðinni og hinum þögula fjölda sem flykktist til
fundar við hann undir kvöld, þegar hann hallaði höfði að gluggarúðun-
um og festi sjónir á grænu, slýjugu vatninu og hinu drungalega tré sem
gnæfði framan við höllina. Allt sem er í ætt við líf hlaut að flýja svæðið
fyrir framan tréð, vegna þess að konungurinn lét refsa bæði ungæðis-
hætti og ást, og hinir ruddalegu stríðsmenn hans höfðu gereytt öllu í tíu
mílna fjarlægð. Hann hafði fyrirskipað að öllu yrði eytt og brennt í ríki
hans. Hvorki var eftir gras né fugl né annað lífsmark. Aðeins tréð stóð
upprétt, teinrétt og uggvænlegt, hið fordæmda tré sem í ríki hans var
notað í staðinn fyrir gálga.
Fótatak konungsins bergmálaði í grafarþögn hallarinnar, þegar hann
gekk eftir hinum auðu göngum, hægt eða hratt, eftir því hvaða þunga
hugsun nagaði hann, og þannig slitnuðu hellurnar á hinu harða gólfi
smám saman. Konungurinn var ófær um að elska. Munaðurinn, hug-
sjónin, ástin og hið hvíta konuhold, allt var þetta honum meinað.
Fótatak hins sjúka konungs heyrðist klukkustundum saman, alla nóttina
var hann á rölti. . .
517