Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Side 66
Tímarit Mdls og menningar
sinni fyrir honum. Það sem særir er að sjá hvarvetna nærveru dauðans á
grómteknum veggjum rakarastofunnar og hvernig ellin hnígur af gúlp-
andi pappanum í loftinu sem svignar stöðugt meir og meir niður að
gólfi. . .
En meistari Fínezas virðist ekki veita hrörnuninni athygli. Leikandi
veður hann úr einu í annað. Ég verð að hafa mig allan við eigi ég að geta
fylgst með efninu. Nú kvartar hann við mig undan bæjarbúum og
klykkir út eins og venjulega með þessum orðum:
Fólkið hérna hugsar ekki um annað en að vinna og að versla. Annan
tilgang hefur það ekki í lífinu. . .
Eg vind til höfðinu og lít til meistara Fínezas og veit hvað hann ætlar
að segja. Hann ætlar að trúa mér fyrir hvernig hann er misskilinn. Hann
ætlar að ræða um tónlist, leikhús og ljóðlistina, tyggja í eyru mér að
listin sé það fegursta í lífi manns. En nei. Núorðið skiljum við hvor
annan með augnaráðinu einu. Meistari Fínezas hleypur yfir allar sög-
urnar og lyftir rakhnífnum með leikaralegum tilburðum og segir:
Hvað heldurðu að það hérna skilji list? Ekki vitund. Þú hefur hins
vegar lært og veist hvað listin er. En fólkið hérna það deyr án þess það
hafi notið fegurstu stunda sem lífið hefur að bjóða.
Meistari Fínezas stikar yfir gólfið að skáp í veggnum og tekur fram
fiðluna.
Heyrðu, kalli, ég hef ekki enn sagt þér. . . en sjáðu, allt hef ég selt til
að forða okkur frá sulti. . . Allt. Nema þetta!
Hann réttir fiðluna fram í áttina til mín og heldur klökkvanum í
skefjum.
Ekki þetta, þótt ég ætti að detta niður dauður! . . . Síðustu minning-
una mína. . .
Hann þegir um hríð og horfir niður fyrir sig. Síðan segir hann með
munninn galopinn eins og sá sem biður um ölmusu.
Langar þig, kalli, að heyra tónlist sem ég lék oft?
Eg hef ekkert á móti því, svara ég og neyði mig til að brosa
ánægjubrosi.
En hann hlustaði ekki á mig. Hann stóð á miðju gólfi, milli dyranna
og mín og skorðaði fiðluna undir hökunni.
Boginn straukst um strengina og hægt tónfallið fyllti húsið í þögninni
frá götum bæjarins. Tónninn breikkaði hægt. Hann varð nú sterkari,
bjargarlaus áþekkur magnlausum gráti. Svo stilltist hann og bylgjaðist í
fjarlægð, snéri við og smaug gegnum mig og vakti sára tilfinningu.
536