Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Qupperneq 84
Tímarit Máls og menningar
Opnið!
Við heyrum þrusk í Manolo og konunni. Aftur er barið, þrælslega, og
tekin rödd Manolos svarar:
Já, ég kem!
Kveiktu ljós! er kallað að utan.
Klórað er með eldspýtu og fjalirnar í þilinu milli okkar og Manolos
koma í ljós. Dyrnar opnast:
Upp með hendur!
Glymjandi fótatak berst inn. Þjóðvarðliðarnir sjást ekki, en við
finnum reiðiandblæ stafa af þeim. Ognin fyllir húskofann:
Hvar er skammbyssan, haglabyssan?
Eg á enga skammbyssu. . .
Við heyrum að leitað er. Eflaust hafa þeir fundið byssuna:
Með þessu á að drepa mann, ha?
Eg hef aldrei drepið neinn, svarar Manolo hóglátur. Þetta er veiði-
byssa.
Löðrungur smellur, síðan heyrist þungt sverðshögg.
Maðurinn minn gerði engum illt, herra vörður. . . I guðsbænum. . .
Látt’ana þarna! heyrist sagt.
Uti er kallað og varðliðarnir fara. Eg teygi höfuðið fram og lít gegnum
gatið. Varðliðarnir fara yfir svæðið sem er autt og flýta sér að hreysi
„Sexfingra“. Barið er með byssuskeftum á dyrnar. Enginn opnar og
barið er áfram og hurðin brotin. Varðliði stígur fram og miðar hlaupinu
inn. Skotinu er svarað með skammbyssu- og byssuskotum. Vörðurinn
hikar, svignar örlítið aftur á bak, teygir út hendurnar, reynir að styðja
sig en fellur þunglega á jörðina.
Hinir varðliðarnir þyrpast inn á svæðið sem ég sé. Þeir eru ólmir yfir
falli félaga síns og skjóta linnulaust á hreysið. Riffilskot þýtur út stöku
sinnum, ef hlé verður á skothríðinni, og einhver skipar:
Sláið hring um húsið svo enginn sleppi!
Skothríðin er linnulaus og hríðskotabyssunum komið upp andspænis
kofanum. Fyrirliðinn virðist vera uppi við vegginn á húsi Manolos, rödd
hans berst greinilega til mín um opið:
Best að senda einhvern svo þeir gefist upp. Síðan fá þeir að kenna á
því. . .
Aftur er barið að dyrum hjá Manolo, og hann heyrist segja hranaleg
orð við konuna, síðan heyrist fótatak hans. Varðliðarnir ryðjast inn og
draga Manolo út.
554