Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Síða 88
Tímarit Máls og menningar
hann ber ekki kennsl á það strax. Höfuðsmaðurinn talar, en Fernando
Lago snýr sér ekki við og fellur magnþrota yfir hina svörtu þúst sem enn
rýkur úr. Skelfingaröskur rýfur nóttina og berst til okkar skerandi:
Dóttir mín!
Hann er dreginn upp á handleggnum, og þegar hann stendur aftur
uppréttur hrópar hann með miklum handaslætti harm sinn og reiði, en
skammbyssu er beint að höfði hans — skot — og hann fellur dauður ofan
á brunnið lík Manúelu.
A örvæntingarfullan hátt reyni ég að ná skotmarkinu hreinu, en
höfuðsmaðurinn er sífellt umkringdur varðliðsmönnum og fer út og inn
á sjónmál mitt úr gatinu. Kristófer kennir þetta klaufaskap mínum og
reynir líka, en árangurslaust.
Varðliðarnir stugga fleiri bændum inn í gripagarðinn, skot, og lík
fellur yfir það sem fyrir var.
Eg þoli þetta ekki, verð sem óður, viti mínu fjær og annað hvort slefa
eða blóð er á vörum mér. Nú skríð ég að lúkunni sem við komum inn
um, segi ekkert við Kristófer, en hann kemur á eftir mér. Eg man óljóst
að Manolo tók stigann, gildir einu, ég stekk út í myrkrið, heyri kúna
hreyfast við hlið mér, til vinstri, og skruðning í Kristófer sem stekkur
líka. Dimmt er og þögult, skelfingin hefur eflaust gert konu Manolos
hljóða í húskofanum. Við skríðum sem skriðdýr í myrkrinu, ég hvísla að
Kristófer:
Miðum samtímis.
Við húshornið heyrðist, skammt undan, hálfkæfð rödd grátandi
karlmanns sem sagði:
Höfuðsmaður minn, ég hef starfað hér í þjóðvarðliðinu í fimm
mánuði og þekki þennan mann aðeins að góðu. Svo hefur hann verið
veikur á annað ár. Eg ábyrgist hann.
Eg þekki röddina sem svarar:
Reyndu ekki að blekkja mig með veikindakjaftæði. Hann verður hér
eftir eins og hinir. — Og hann endurtekur: Fyrirmæli mín eru ströng; ég
hlýði þeim.
Eg gægist fram, sé hann á hreyfingu, má engan tíma missa og skýt; og
ég skýt á ný.
Kliður fyllir myrkrið, með skothríð, og það eru reiðihróp og hlaupið í
átt til okkar. Algert uppnám. Eg veit ekki hvort ég er á lífi eða þegar í
öðrum heimi, fell, rís upp, á stöðugum hlaupum og veit ekki enn hvort
ég er heill eða særður. Myrkrið er hvarvetna. Eg ligg flatur og heyri
558