Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Page 119
Unnustinn
skapaða hluti. „Þetta á ég allt: himin og jörð!“ hrópaði hann. Skjálfti
greip hann, lamaðan af undrun. Hann var gripinn af meðvitund um vald.
Var dagur kveðjustundarinnar runninn upp? Slíkt gilti einu, hann mundi
snúa aftur, ekkert gæti hindrað afturkomu hans. Hverjar voru hinar
smásálarlegu kröfur, hindranirnar, ásakanirnar, svikin, launsátrin og öll
banatilræðin sem lífið flækti hann í? Hvaðan var þetta sprottið? Var það
runnið frá sérhverju þeirra háværu smámenna sem hann sá ganga á
fótunum, snúast og hittast, líkir maurastraumi sem iðar æstur og hik-
andi? Hlátur barst frá piltinum þar sem hann hallaðist yfir djúpið.
Auðæfi? Hann átti þau. Sigrar? Hann átti eftir að kynnast þeim. Hann
teygði nú fram handlegginn og gat snert tindana, snert sjónbauginn og
dregið fingur fram með jaðri sjálfrar jarðarinnar. Ástríða hans var
ósigrandi, flugbeitt, hlífðarlaust vopn. Ef sérhver maður sem gekk um
niðri í gljúfrum gatnanna, fram með blokkum borgarinnar, stynjandi og
bölvandi undir þunga byrða sinna, hefði þekkt þennan sannfæringar-
kraft og veðjað á víti ástríðnanna þá hefði hann varðveitt í sér guðseðli
mannsins og ekkert gæti staðist hann. Hinir örlagaþrungnu unnustar
ástríðunnar eru burðarstólpar og endurlausnarar heimsins. Þeir minna
öðru fremur ef til vill á það guðlega atgervi sem maðurinn reynir að
endurheimta.
„Sama er mér þótt ég fari! “ sagði unnustinn þrunginn djörfung og
stoltum ofsa. Fátæktin var hvarvetna kringum hann og eyðileiki. Um föl
heiðríkjuop á austurhimni streymdi birta yfir borgarþökin og leiddi
fram ljótleika og niðurníðslu. Ljósið eitt var fagurt, frábært, áþekkt
tindrandi blettum, líkt og möskvar úr gulli, og milli þeirra synti eitthvað
í líki stjarna í stórum torfum.
Með AUGUSTINA BESSA LUIS, sem er fædd 1922, lokast hringur sögu portú-
galskra bókmennta á þessari öld. Við erum á ýmsan hátt stödd við upphafið á
svipuðum slóðum og andlegu hræringarnar hófust, þær sem síðan tóku á sig svip
angurværðar, táknrænan eða nýraunsæjan.
Bessa Luis er ekki hrein í vísbendingum sínum til táknanna í eðli manns og
þjóðlífs. Hún er engu að síður táknræn, helst á sviði tungunnar. I málinu er sú
samþjöppun sem hægt var að finna hjá táknrænu skáldunum. Líklega stafar þjöpp-
unin af hinum ljóðrænu eiginleikum. Aftur á móti leysir skáldkonan upp ljóðrænu
eiginleikana með raunsæi í lýsingum sínum á lífi sögupersónanna. Það er gjarna á
mörkum nöturleika og hlýju.
Helstu verk Bessu eru Mundo fechado (Lokaður heimur), A sihila (Völvan),
Sermao do fogo (Eldskírn) og þríverkið As relacoes humanas (Mannleg samskipti),
Os meninos de ouro (Gulldrengirnir) og A brusca (Sú kaldlynda) sem kom út í ár.
589