Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Side 49
Föruneyti syndarinnar
meinalaus nema Kristur einn; jafnvel María mær og heilagir dýrlingar höfðu
brotið sitthvað af sér, en syndir þeirra voru þó svo smávægilegar, að ekki
þótti saka. Syndum manna var skipað niður í ákveðna flokka, og þóttu sjö
eða átta einna verstar, og var því talað um sjö eða átta höfuðlesti. Yfirleitt
var gert ráð fyrir því, að hver synd væri ekki ein sér heldur hluti af
heildarkerfi og tengd öðrum syndum á tiltekinn hátt. Syndin er því enginn
einstæðingur að hver tegund hennar hefur ákveðna förunauta: ein synd
leiðir til annarrar. Hér má minna á eitt erindi í Hugsvinnsmálum:
111 er ofdrykkja,
fer hún eigi ein saman,
fylgir henni margt til meins:
öfund og þrætur,
óstillt lostasemi,
sótt og syndafjöld.
Tveggja synda er getið í einni andrá í Alexanders sögu: „Eigi eru þeir
hlutir, er meir fyrirkomi góðu siðferði en konurnar og víndrykkjan.“ Og
þegar Sverrir konungur flytur mögnuðustu bindindisræðu, sem til er á
íslenzku fyrir siðaskipti, þá telur hann skipulega upp alla þá lesti, sem
ofdrykkjunni fylgja. Ræða hans ber glöggt vitni um útlendan lærdóm, og
kemur það í rauninni engum að óvörum, þar sem Sverrir sjálfur var
klerkmenntaður maður, eins og raunar höfundur Sverris sögu Karl Jónsson
ábóti á Þingeyrum. Auðvelt væri að benda á latneskar fyrirmyndir að
rökfærslu Sverris, en það verður þó að bíða betri tíma.
Nú er það eftirtektarvert, að ofát ekki síður en ofdrykkja var talið leiða
menn í freistni, enda segir svo í íslenzku riti frá tólftu öld: „Ekkert kveikir
svo skjótt hug manns og hold til munúðlífsins sem magfyllin.“ Ofneyzla öll
var ekki einungis talin syndsamleg í sjálfri sér, heldur þótti ávallt hætta á, að
hún leiddi til annarra lasta. Viðhorf manna til líkamlegrar og andlegrar
neyzlu voru öll önnur fyrr á öldum en nú, þegar sífellt er verið að teygja
menn til að eignast sem mest og sóa sem mestu, jafnvel þótt þeir bíði tjón af
öllu saman.
En hér er ekki ætlunin að prédika um syndirnar, heldur að minna á þætti
þeirra í fornum bókmenntum. Yfirleitt mun það vera regla, að þegar fornir
höfundar vorir ræða um tilteknar syndir og draga almenna siðalærdóma af
þeim, þá er farið eftir útlendum fyrirmyndum, og stundum er hægt að rekja
feril slíkra hugleiðinga frá einu riti til annars. Þannig getur þekking á
fornum syndum leiðbeint ritskýrendum um bókmenntaáhrif og jafnvel
gefið nokkrar hugmyndir um aldur einstakra verka.
Hér að framan vitnaði ég í Hugvinnsmál, en þau eru þýðing og endur-
39