Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Side 52
Tímarit Máls og menningar
Hér staldra lesendur við og spyrja: Hvers konar mein eru það sem koma
eftir munúð? Annars staðar í fornum ritum merkir orðið mein svipað og
synd í nútímamáli, svo sem í Hómilíubók, þegar vitnað er í Jóhannesar
guðspjall um þann „guðs gimbil, er á braut tók mein heimsins", og verður
þessi setning öllu daufari í biblíu-þýðingu frá tuttugustu öld, þar sem nefnt
er „guðslambið, er ber synd heimsins." A tólftu öld, eins og raunar enn í
sveitum þessa fagra lands, kunnu menn skil á „lambi“ og „gimbli“, og orðið
„mein“ í þessari fallegu setningu er valið af meiri snilld en síðari þýðendum
ritningarinnar var í brjóst lagin. Höfundar Islendingasagna, sem lögðu
sérstaka stund á að lýsa syndugu fólki, forðuðust orðið „synd“ eins og
heitan eldinn. Þegar smalamanni í Hrafnkels sögu er sagt, að hann megi ekki
ríða tilteknum hesti og öll önnur hross séu honum til reiðu, þá fer hann ekki
með hugleiðingar um syndina, heldur segir hann blátt áfram að sér sé ekki
svo mein gefið að ríða þeim hesti, er honum var bannað, ef þó væru mörg
önnur til. Um orðið synd gegnir sama máli og um öll önnur orð tungunnar,
að menn eiga að nota það af kurteisi og aldrei að beita því nema það sé bezta
orðið sem völ er á.
Þegar skáld Sólarljóða talar um munúð, þá myndi þýðandi Hugsvinns-
mála ef til vill nota orðið „sællífi“, og guð má vita hvernig nútímamenn
myndu komast að orði. Og nú vildi ég ítreka það sem ég hef þegar vikið að í
lausum orðum: ef þjóðin hefur áhuga á að kynnast syndinni, þá verður hún
að lesa Sólarljóð af öllu meiri alúð en gert hefur verið um undanfarna
mannsaldra, og þó sérstaklega að hlíta þeim varnaðarorðum, sem hið forna
skáld gaf samtímamönnum sínum:
Munaðar ríki
hefur margan tregað.
Þótt forfeðrum vorum fyrr á öldum þætti sjálfsagt, að menn nytu lífsins,
var sífellt verið að vara menn við skammvinnri gleði. I Hómilíubók er þetta
orðað á einfaldan og áhrifamikinn hátt: „Lítil er stund munúðlífsins.“ Þessi
setning var fest á bókfell á tólftu öld, og undir lok þeirrar aldar skrifar
óþekktur prestur í Skálholti, höfundur Hungurvöku, á þessa lund: „Margur
hefur þess raun, ef hann leitar sér skammrar skemmtunar, að þar kemur eftir
á löng áhyggja." Og á fjórtándu öld semur annar snillingur einhverja beztu
riddarasögu, sem til er á íslenzku, Adonías sögu, en hann orðar þetta svo:
„Eftir stutta gleði mun koma löng hryggð." Hins vegar segir í Bragða-
Mágus sögu: „Margur fær þrá fyrir litla stundarfýst." En norskur þýðandi
Barlaams sögu, sem þótti aldrei neitt sérstaklega orðlatur maður, kveður að
orði á þessa lund: „Að liðinni gleði er það þá leiðast, er áður var kærast.“
Eins og syndin, þá átti gleðin sér heldur leiðinlega förunauta. Öll þau
42