Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Page 77
Islendingaþœttir
hugsjónin einber, fyrirmyndin, heldur fjölbreytilegar og bráðlifandi. Má
ætla að fjölbreytni þáttanna og skerpa í mannlýsingum sé til marks um
handbragð rithöfunda og jafnvel nokkra rithefð, þó að mér þyki líklegt að
munnleg frásagnarhefð búi undir og hafi lagt til frásagnargerðina.
Þar sem líta verður á hverja persónu með hliðsjón af hugsjón eða
fyrirmynd er augljóst að ekki er einhlítt að lesa þættina eins og sagnfræði-
legar skýrslur eða sálarfræði. Varla dettur nokkrum lesanda í hug í alvöru að
þættirnir gefi trúverðuga mynd af komu íslenskra manna til útlendra
höfðingja á miðöldum. Konungum er nánast lýst eins og bændum sem búa á
afskekktum stað og verða afskaplega fegnir þegar einhver kemur í heim-
sókn, jafnvel þótt hann virðist vera hálfgerður fáráðlingur við fyrstu sýn.
Halldór Snorrason, Teitur Isleifsson og fleiri íslendingar ögra konungum á
öldungis ósennilegan hátt. Þáttunum er heldur ekki ætlað að vera eftirlíking
lífsins í slíkum ytri atriðum. Þeim hefur vafalaust verið ætlað að skemmta,
en um leið birta þeir glímu höfunda og áheyrenda (þeir hafa verið lesnir
upphátt þó skrifaðir væru) við gildi eða viðmiðanir sem voru mönnum
hugstæð.
Við höfum séð að kjarni þáttanna eru skipti konungs og íslendings á hylli
og hollustu, myndun trúnaðarsambands sem yfirleitt er staðfest með
gjöfum, en markar jafnframt stöðu þeirra hvors gagnvart öðrum og
gagnvart samfélaginu í heild. Freistandi er að álykta að með síendurteknum
frásögnum af þessum viðskiptum hafi þeir sem sömdu þættina og veittu
þeim viðtöku leitast við að fá staðfestingu á ákveðnum skilningi á samfé-
lagsstöðu sinni og samfélagsskipuninni yfirleitt og jafnvel einnig gert sér
bærilegri lifaðar mótsagnir milli hugmynda, sem þeir höfðu um sjálfa sig og
stöðu sína í veröldinni, og daglegs veruleika.
Hugmyndaheimur þáttanna er vitaskuld ekki einfaldur eða bundinn einni
grundvallarhugmynd. I grein sinni frá 1976(a) gerir Joseph Harris ágæta
grein fyrir þeim yrkisefnum eða hugmyndum sem birtast í þáttunum og er
ekki ástæða til að endurtaka það hér. Hins vegar virðist mér þar ýmislegt
vera ósagt um mikilvægt atriði: Hver er kjarni þess manngildis sem þætt-
irnir leiða í Ijós með svo fjölbreytilegum hætti? Það virðist ótvírætt að
þættirnir fjalli umfram allt um manngildi þeirra íslendinga sem þar eru
söguhetjur og þá vitaskuld um manngildishugsjónir þeirra sem sáu og
skynjuðu sjálfa sig í þessum söguhetjum. Mér virðist hentugt að gera
greinarmun á manngildi, sem er tengt innsta kjarna persónuleikans, og
mannkostum, sem geta verið margvíslegir, td. vígfimi, orðheppni, skáldgáfa.
Sá skilningur virðist vera allsráðandi í þáttunum að manngildi sé ekki neitt
sem menn afla sér, heldur eitthvað sem í þeim býr en þeir þurfa að sýna og
sanna, atburðarásin leiðir manngildið í ljós.
67