Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Side 22
Tímarit Mdls og menningar
stundum að væri eitt og hið sama. En í þessari merkingu var orðið ekki
langlíft: rannsókn á bóka- og greinatitlum bendir til þess að það sé að mestu
úrelt í sálfræði nú.
Orðið Mentalité kom ekki aftur fram á sjónarsviðið í vísindamáli fyrr en
með hugarfarssögunni frönsku og telur Le Goff að hliðstæð notkun orðana
mentality, Mentalitat, mentalidad o. þ. h. í Evrópumálum sé til komin fyrir
frönsk áhrif. En neikvæður blær franska orösins mentalité virðist ennþá
setja mark sitt á þá grein sagnfræðinnar sem við það er kennd og stuðla
jafnvel að því að móta viðhorf manna til hennar og þá stefnu sem hún hefur
tekið. Le Goff bendir á, að þeir sem fást við hugarfarssögu hneigist talsvert
til að velja sér viðfangsefni meðal þeirra fyrirbæra fortíðarinnar, sem nú eru
talin „órökrétt" eða flokkuð undir „hjátrú“ (t. d. viðhorf til kraftaverka, bið
eftir heimsendi o. þ. h.) eða eru í eðli sínu neikvæð og bjóða heim órök-
réttum viðhorfum (hræðsla, dauði). Þeir fjalli einnig gjarnan um þjóðfélags-
hópa í mótun, t. d. kaupmenn á lénstímabilinu. Við þessi dæmi Le Goffs má
svo bæta, að þessi ákveðni blær orðsins í frönsku hefur tvímælalaust einnig
kynt undir þá kenningu Labrousse, sem áður var nefnd, að í þróun
sögunnar sé hugarfarið á eftir öðrum hliðum þjóðfélagsins, og stuðlað að
því að efla þetta afbrigði „þróunarkenningarinnar“.
Tískuorðið „hugarfar" er því ekki aðeins „merkimiði" á vissri grein
sagnfræðinnar heldur hefur saga þess í málinu og blæbrigði haft áhrif á
greinina sjálfa. En það er ekki allt og sumt: eins og er um mörg tískuorð
reynist merking þess harla óljós og loðin, þegar á að skilgreina hana nánar,
og því ákaflega erfitt að sjá að fyrra bragði hvert er raunverulegt viðfangs-
efni þeirrar sagnfræðigreinar, sem við slík fyrirbæri á að fást. Auðvelt er að
gefa viðunandi skilgreiningu á því hvað er „hugmynd" eða „heimsskoðun“
og er þá jafnframt ljóst hvernig fjalla megi um þau atriði í tímans rás.
Hugmyndir og heimsskoðanir eru settar fram í rituðu máli, myndum
o. þ. h. og hafa áhrif og vekja viðbrögð, og að öllu þessu getur sagnfræðing-
urinn gengið, hann getur afmarkað þessi fyrirbæri, lýst þeim, rannsakað
innbyrðis tengsl, þróun og slíkt. En hvað er hugarfar? Orðið virðist þýða
það sem er „huglægt“, þau sérkenni, sem „hugur“ einhvers manns eða
einhverra manna hefur, og er allt slíkt svo almennt að naumast er hægt að
skilgreina það nánar og afmarka, þannig að einhver fræðigrein geti tekið það
til meðferðar. En af þessu leiðir tvennt, sem torveldar málið ennþá meir:
annars vegar virðist hugarfar vera það sem er innra með hverjum manni og
aðrir geta aldrei kynnst með neinni vissu, síst þeir sem eru uppi löngu síðar
— „hugur einn það veit“ — og hins vegar virðist það vera svo persónubund-
ið að ekki sé unnt að tala um annað en hugarfar einhvers ákveðins
einstaklings. Bæði þessi atriði gera það að verkum að hugarfar í slíkri
420