Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 25
Hugarfarssaga
svæfða og keflaða í kjallaraherbergi. Sumir sögðu að þar hefðu verið fleiri
konur bundnar og svæfðar með sprautu, og undir lokin var jafnvel talað um
að sextíu konur hefðu horfið á þennan hátt: verslanirnar áttu að vera
tengdar saman með leynilegum jarðgöngum, sem lágu síðan út að Leirá, þar
sem kafbátur var á siglingu og sótti konurnar svæfðar . . . Fyrir þessari sögu
var ekki flugufótur, engin kona hafði horfið í borginni eða nágrenni hennar
og fatakaupmennirnir voru vammlausir góðborgarar, sem ekki var með
neinu móti hægt að bendla við mansal. Þeir áttu það reyndar sameiginlegt að
vera Gyðingar. En þrátt fyrir þetta náði orðrómurinn þvílíkum heljartökum
á borgarbúum, að fataverslanir tæmdust af viðskiptavinum. Kom jafnvel til
upphlaupa fyrir utan þær, þar sem reiðir og skelfdir menn heimtuðu að
eitthvað yrði gert í þessu máli og það strax, — eða skyldi lögreglan hafa látið
múta sér og vera í vitorði með kvennaþjófum? Þessi grátbroslega múgsefjun
vakti svo mikla athygli í Frakklandi, að félagsfræðingurinn Edgar Morin var
gerður út til að rannsaka málið, og samdi hann um það bókina Kviksagan í
Orléans, sem hægt væri að flokka undir „samtíma-hugarfarssögu". I ljós
kom við rannsóknina að sams konar orðrómur hafði áður komið upp í
ýmsum öðrum borgum Frakklands, en ekki valdið neitt svipuðum æsingi.
Alls staðar þar sem málið var athugað reyndust kaupmennirnir, sem vox
populi ákærði á þennan hátt, vera Gyðingar.
Margir kynnu nú að halda því fram að hræðsluviðbrögð af þessu tagi séu í
sjálfu sér „sammannleg" og það geti naumast verið verkefni fyrir sagnfræð-
inga að rannsaka hvernig þau komi fram í einstökum tilvikum, nema að svo
miklu leyti sem þau snerta atburðasögu, þar sem öllum smáatriðum er
haldið til haga. Ef ekkert hljótist verra af, sé kvöldvaka í skíðaskála hvorki
fréttnæm fyrir samtímamenn né seinni tíma menn og kviksagan í Orléans
eigi fyrst og fremst erindi á síður blaða, þar sem sagt er frá slysum og
glæpum, — og svo til þeirra sem eru á varðbergi gagnvart Gyðingahatri
(enda létu þeir að sjálfsögðu þessa atburði til sín taka). En svo einfalt er
málið ekki. I ljós kemur að hræðsluviðbrögð eru nátengd sögulegum
aðstæðum, bæði umhverfinu sjálfu og ríkjandi hugmyndum. Þótt Islending-
ar séu duglegir við að leggja trúnað á alls kyns kviksögur, má telja víst að
atburðir af því tagi sem urðu í Orléans gætu aldrei gerst í Reykjavík. Þar eru
alls ekki fyrir hendi þeir tveir meginþættir, sem urðu til þess í sameiningu að
orðrómurinn kom upp og menn lögðu trúnað á hann: gömul þjóðsaga um
undirferli Gyðinga annars vegar og hins vegar nútímaþjóðsaga um skipulagt
mansal, þar sem beitt sé eiturlyfjum og slíku.
Þegar litið er aftur til fortíðarinnar má finna fjölmörg dæmi um hræðslu-
viðbrögð sem voru einu sinni útbreidd, og er eitt þeirra orðið sígilt: frá 14.
öld og fram til loka 17. aldar var ótti við galdra útbreiddur í Vestur-Evrópu
423