Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 37
Hugarfarssaga
rannsaka, hafi verið afmörkuð á sama hátt á hinum ýmsu tímum og haft
svipaða stöðu innan heimsmyndarinnar, þannig að hægt sé að bera saman
t. d. „afstöðu manna til náttúrunnar“ á 12. öld og á 18. öld eins og um sama
fyrirbærið sé nauðsynlega að ræða. Til að forðast þessa hættu grípa sagn-
fræðingar stundum til þess að takmarka rannsóknina við ákveðið tímabil og
fjalla t. d. um „afstöðu manna til náttúrunnar á upplýsingaöld", eða binda
hana við eitthvert ákveðið fyrirbæri sem kemur skýrt fram sem slíkt í
heimildum á vissu tímabili. Eitt dæmi um slíkt er rannsókn Le Goffs á
„uppruna hreinsunareldsins“, sem áður var nefnd, en einnig mætti geta hér
rannsókna Alain Corbin á afstöðu manna til lyktar og óþefs á seinni hluta
18. aldar og byrjun 19. aldar, þegar þeir uppgötvuðu nauðsyn þess að
hreinsa loftið í stórborgum og skáru upp herör gegn óþef. Þegar tímabilið,
sem rannsóknirnar ná yfir, er þrengt á þennan hátt, er nokkur hætta á því að
kjarni sögunnar — tímavíddin sjálf — verði útundan, en eins og dæmin sýna
reyna fræðimenn að forðast þessa hættu einmitt með því að velja tímabil,
þegar róttækar breytingar eru að gerast eða einhver ný fyrirbæri að koma
fram.
Onnur leiðin sem sagnfræðingar fara er annars eðlis: hún er í því fólgin að
rannsaka eitthvert ákveðið og skýrt afmarkað fyrirbæri og nota það annað
hvort sem dæmi um „hugarfar" manna á tímabilinu eða sýna hvernig í því
getur kristallast heimsskoðun stórra þjóðfélagshópa. Dæmi um slíkt er
rannsókn Le Roy Ladurie á þeim vofeiflegu atburðum sem gerðust á
Kjötkveðjuhátíðinni í Romans í febrúar 1580 og endurspegluðu hugmynda-
heim og þjóðfélagsmynd borgarbúa. í ritinu Kattamorðin miklu rekur
Robert Darnton nokkur „sýnishorn" af hugarfari Frakka á 18. öld í þeim
tilgangi að gefa e. k. „pointilíska" mynd af því. Fyrir utan „kattamorðin í
Rue Saint-Sévérin“, sem bókin dregur nafn sitt af, gerir Darnton t. d.
nokkuð ítarlega grein fyrir skýrslum, sem dugmikill lögreglumaður gerði
um rithöfunda í París um miðja 18. öld og hann telur dæmi um viðhorf
yfirvalda til slíks rumpulýðs. Síðan fjallar hann um bréf sem Rousseau fékk
frá lesendum skáldsögu sinnar „Heloisu hinnar nýju“ og hann tekur sem
vitni um straumhvörf í tilfinninganæmi manna á þessum tíma. Rannsóknir
af þessu tagi geta verið ákaflega frjóar og skemmtilegar, en talsvert skortir
þó á að þessi leið hugarfarssögunnar geti talist fyllilega vísindaleg: það er
nefnilega oft erfitt að sjá hver er raunveruleg staða „dæmanna" eða „sýnis-
hornanna" á sínum tíma, hver eru tengsl þeirra við önnur fyrirbæri sögunn-
ar og á hvaða hátt þau geta talist „einkennandi“ fyrir eitt eða annað. Á sama
hátt er staða þeirra í tímans rás oft næsta óljós: er hér um að ræða
langtímafyrirbæri, skammtímafyrirbæri eða dæmi um einhverja skyndilega
breytingu? Til að bæta úr þessu reyna sagnfræðingar gjarnan að draga línur í
435