Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Side 64
Tímarit Máls og menningar
dró úr fólksfjölguninni á ný. Takmarkanir á öreigagiftingum voru því, að
mínu áliti, tilraun til að koma á sjálfvirkri stjórnun fólksfjöldans, eða eins
konar aHto-regulation, sem franski sagnfræðingurinn Jacques Dupáquier
hefur talið eitt megineinkenni fólksfjöldasögu Frakklands á fyrri tíð.14
Breytingin á afstöðu þingmanna í öreigagiftingamálinu þarf ekki að bera
vott um afturhvarf frá frjálslyndi til íhaldsstefnu. Frekar var hér um að ræða
breyttar aðstæður sem kölluðu á ný viðbrögð.
Ef kannaðar eru umræður þingmanna um lausn á þeim vanda sem við
blasti árið 1859 er erfitt að ímynda sér að þar tali menn sem skömmu fyrr
hafi verið snortnir af frjálslyndum hugmyndum. I stað þess að láta markað-
inn um að finna jafnvægi fólksfjöldans þá átti að auka höftin. Okkur hefði
sennilega fundist nær að vinna að sköpun nýrra atvinnutækifæra en banna
giftingar, sérstaklega þar sem fiskveiðarnar buðu upp á feikilega möguleika
sem lítt voru nýttir á þessum tíma.
En rangt væri þó að telja alþingismenn alls ósnortna af frelsisanda sinnar
tíðar. Þingmönnum var mjög tíðrætt um eigin frelsisást og þá trú sína að
frelsi væri undirstaða framfara „ ... ég álít“, sagði Guðmundur Brandsson,
bóndi í Landakoti, á þjóðfundi „öll bönd á eðlilegu frelsi manna olla meir
tálmunum en framförum, ... “15 En það þarf ekki að lesa þingræður lengi til
að sjá að sá skilningur sem þingmenn lögðu í hugtakið frelsi var afskaplega
ólíkur þeim sem við eigum að venjast. Fyrir þeim var, svo ég vitni beint í
ræðu séra Davíðs Guðmundssonar í öreigagiftingamálinu árið 1869, „frelsi
... ekki óbundið sjálfræði, og að mínu viti er það náttúruréttur manna, að
félagið veiti einstaklingnum vernd sína til þess að ganga inn í þá stöðu, sem
líkur eru til að hann geti orðið sjálfum sér og félaginu til heilla í ... “16 Eg
held að þessi ummæli lýsi nokkuð vel afstöðu meirihluta þingmanna til
frelsis einstaklingsins. Frelsi var að þeirra mati ekki skýlaus réttur sérhvers
manns heldur gjöf samfélagsins til þeirra sem með það kunnu að fara. Þeim
fannst ekki felast neitt ósamræmi í því að takmarka rétt manna til giftinga
eða til að velja sér atvinnu á sama tíma og þeir lofsungu frelsið. „Frelsið er
hin mesta heill þjóðanna," sagði Magnús Jónsson í Bráðræði á þingi 1865,
„og það hnoss, sem hver á að virða og halda í heiðri innan þeirra takmarka,
sem það er bundið við. En hvernig þetta geti átt sér stað hjá óreglumönnum,
skil ég ekki ... “17
Til að skilja ummæli Magnúsar verðum við að athuga frekar hvað hann og
kollegar hans áttu við þegar þeir vildu takmarka frelsi óreglumanna. Öll
samfélög leggja einhver höft á þegna sína, og jafnvel í draumsýn frjáls-
hyggjumannsins er gert ráð fyrir takmörkunum á frelsi þeirra sem ógna
samfélaginu. En þessi hópur óreglumanna var, í augum þingmanna um
miðja 19. öld, nokkuð stór. Jón Sigurðsson, hreppstjóri og bóndi á Haugum
462