Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Blaðsíða 42
I formálanum ver Níels rímur með ýmsum rökum (63-65) og má sjá að ást
hans á rímunum felur í sér þjóðlega menningarviðleitni. Ásökunum um að
rímur séu fullar af merkingarlausum hjálparyrðum svarar hann með því að
benda á að hið sama eigi við um sálma: „til sanns“, „með sann“, „greina skal“
og ótal fleiri — „Er þá furða þótt rímurnar hefðu þetta líka?“ Níels segir að
rímnahættir hafi oftast verið brúkaðir til að „segja sögur í hendingum“ og
sé ekkert skáldskaparsnið eins vel til þess fallið. Hins vegar viðurkennir hann
að ofbjóða megi málinu með dýrum háttum. Til kosta rímnaformsins heyrir,
að dómi hans, að
versin eru stutt, svo þegar tunguheppinn hendingasmiður bindur
mikið í hverju þeirra, prýðir þau með snotrum kenningum, stuttum
en heppnum, gefur þetta lesendunum smekk og ánægju, en verkinu
það kúnstarlíf, sem hvorki getur í þeim nýinnleiddu útlendu né
heldur miðaldarkvæðalögum vart um orðið. (65)
Fram kemur að meiningarlaus hjálparyrði, göp, bjagaðir ljóðstafir, sundur-
slitnar nrálsgreinar, hártogaðar kenningar og ónáttúrlegar hugmyndir hafa
verið fundnar rímum til foráttu, og tekur Níels undir að allt séu þetta gallar
á rímum því hann kveðst vonast til að lítið sé af slíku í hans eigin verkum
(68).
Úr þessum merka formála skal loks minnst á tvennt í viðbót, hið fyrra
varðar eiginleika íslenskrar tungu og hið síðara eiginleika skáldskaparins.
Ní els segir að þj óðtunga okkar hafi tvo eiginleika sem aðrar þj óðtungur vanti
og séu þeir (a) „ríkidæmi af samstöfum“ og (b) „efni til bæði Eddukynjaðra
og nýgervings kenninga“ (66). Öfundarmenn af öðru þjóðerni
ráðleggja okkur að draga úr okkur þessar tennur, svo við fáum ekki í
þær tannpínu, vegna þess þær spruttu ekki í þeirra gómum. (...) og
skal mig aldrei furða, þó hegranum sé illa við vatnið, þegar eg gef mér
tíma til að aðgæta, að hann er ekki fitfugl. (66)
Minnir þetta lof íslenskrar tungu á lof evrópskra endurreisnarmanna um
þjóðtungur sínar (s.s. Sidney, Du Bellay og Bembo, sbr. Baldwin, 27-38).
En um skáldskapinn almennt segir Níels litlu síðar:
Tveir eru fullkomleikar þeir, er eg þykjumst bera skyn á, að skáld-
skaparmenntinni séu svo eiginlegir sem jafngamlir. Sá eini er hug-
smíðakrafturinn eður bílætasmíðin, hinn annar tungustyrkurinn, að
færa hrærandi orðatiltæki, að þau geti markað spor í þenkjandi sálum.
En þegar þetta er hvorttveggja ffá, finn eg ei hvað eftir er, og ekki veit
eg, hvað þeir vilja láta finna verkum sínum til lofs, sem hvorugt þetta
stunda. (66-67)
40
TMM 1994:3