Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Blaðsíða 57
hugsaði Indriði og beygði sig niður eftir bókarslitrinu. „Hvað skyldi
það vilja segja mér svart á hvítu? Kannski er það snillingsverk; einhver
dæmalaust huggandi lífsspeki — kannski jafnvel ljóð.“
Það var hætt að rigna, og hann sá vel til að lesa velkt og vatnsósa
blaðið. En það var ekki mikið að sjá; mestallt lesmálið hafði máðst út
og var gersamlega ólæsilegt, nema nokkrar línur efst og neðst á
síðunni.
HABAKKUK 3 949
hafdjúpið lœtur raust sína dynja,
réttir hendur sínar hátt upp.
las hann efst á blaðinu. 949 hlaut að vera blaðsíðutal, og Indriða
rámaði í að einhver Habakkuk hefði verið skáld eða spámaður fyrir
óralöngu — já, eða jafuvel snillingur eins og Indriði sjálfur. Hann
hlaut allavega að hafa verið ljóðskáld, því það gerðist aldrei að hafið
rétti hendur sínar hátt upp, nema í ljóði. Textinn neðst á blaðinu
minnti líka á ljóð:
Þótt fíkjutréð blómgist ekki
og víntrén beri engan ávöxt,
þóttgróði olíutrésins bregðist
og akurlöndin gefi engafœðu,
þótt sauðfé hverfi úr réttinni
og engin naut verði eftir í
nautahúsunum,
þá skal ég þó gleðjast í Drottni,
fagna yfir Guði hjálprœðis míns.
„Æ, Habakkuk, gamli Biblíuspámaður,“ hugsaði Indriði samúðar-
fullur, skjálfandi af kulda af kyrrstöðunni í fjörunni. „Hvað heldurðu
að þýði að skrifa um fíkjutré og víntré fyrir gegnfreðna heimskauts-
þjóð? Nei, til að ná athygli íslendinga hefðirðu átt að segja ...“
Indriði Haraldsson snillingur starði út í grámann án þess að sjá, og
án þess að taka eftir því teygði hann höndina í innri frakkavasa sinn
og fiskaði upp skrifbókina og kúlupennann, og skrifaði efst á auða
blaðsíðu:
Þótt
TMM 1994:3
55