Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Blaðsíða 35
segir að hann hafi stokkið hærra en aðrir menn og hlaupið hraðar, hann hafi
verið hagur og kunnað að skrifa einar tíu stílshandir. Þá var hann að sögn
Símonar fimur að klifra, „afar knár að afli“, góður í handahlaupi og grasa-
fróður. Og svo segir þetta: „Sængurkonum kærastur / kappinn listahraður, /
og var líka einstakur / yfirsetumaður,, (171-172).
Þá kemur fram í lofinu að Níels hafi verið skyggn, kunnað að lesa í lófa,
verið frábær sláttumaður, hreinlyndur og vitur — og loks er þess getið að
sjálfur Bjarni Thorsteinsson hafi talið hann gott skáld: „Bjarni amtmaður,
frægð sem fann, / fær í dómum vöndum, / mestan „digter“ hermdi hann /
hér á Norðurlöndum“ (174). Á hinn bóginn kemur einnig fram í kvæðinu
að hann var „sérvitur með sína trú / sagður í meira lagi“.
Til eru tveir frásöguþættir samtímamanna um Níels og eru báðir prent-
aðir með úrvali því úr verkum hans, sem Finnur Sigmundsson tók saman
árið 1948. Sá fyrri er eftir Ólaf Sigurðsson bónda á Ási í Húnavatnssýslu,
hinn eftir Þorkel Bjarnason. í pistli Ólafs kemur meðal annars fram að Níels
„var söngmaður góður og lagsæll, en aftur var lestur hans óáheyrilegur, því
hann stamaði mikið“ (17). Ólafur segir að hann hafi verið skemmtinn og
þótt gaman að ræða við menn um skáldskap, fleygði undir eins pennanum
ef einhver fór að spyrja hann út í kveðskap hans eða vildi tala um Biblíuna.
„Þótti honum ekkert að, þó til slíks samtals gengju hálfir dagar“ (18). Mun
hann hafa haft gaman af að þræta við presta og gerðist þá stundum „advo-
catus diaboli“ ef svo bar undir, hélt m.ö.o. fram einhverri vitleysu að gamni
sínu. Ólafur í Ási segir að Níels hafi alla sína ævi haldið sig við „hina
barnslegu trú, sem honum hafði verið kennd í æsku“ og má finna þetta af
skrifum hans og svo hitt hve trúmál voru honum ofarlega í huga. Páll Eggert
Ólaso'n segir reyndar að hann hafi verið haldinn trúarofsa og hafi til að
mynda þótt Hallgrímur Pétursson svo linur í trúnni að hann hafi gengið út
í fússi undir lestri Passíusálmanna með þessum orðum: „Ég þoli ekki að
heyra guðlastið í honum Hallgrími.“ Það sem bar á milli var víst að Hallgrím-
ur trúði á fyrirgefningu syndanna fremur en eilífa glötun.
Níels átti stundum í útistöðum við menn. Bjarni amtmaður og Espólín
sýslumaður voru honum tryggir vinir, en öðru máli gegndi um ýmsa aðra.
Níels var óvæginn í skrifum sínum og má sem dæmi nefna ádeilur hans á
Björn Gunnlaugsson og Sigurð Breiðfjörð, þar sem ekki var verið að skafa
af hlutunum. Þá kom honum svo illa saman við son sinn Hálfdan að hann
stefndi honum fyrir sýslumann á Sauðárþingi árið 1854.
Níels var sagður sjálfhælinn og sést t.d. af skrifum hans að hann taldi sig
skáld, en „skáld“ var mikið sæmdarnafn í munni hans. Sú saga er komin frá
Hannesi Hafstein að nokkrir kátir skólapiltar hafi komið að máli við Níels
TMM 1994:3
33