Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Page 22
Árni Sigurjónsson
Ingólfseðlið
Landnámsmannasálfræði frá fullveldi til kreppu
í nokkrum bókum frá árunum milli stríða koma fram hugmyndir um
mismunandi persónugerðir, sem forvitnilegt er að skoða. Hugmyndir þessar
koma fyrst fram hjá Gunnari Gunnarssyni og Sigurði Nordal. En er líður á
tímabilið fá þessar hugmyndir nýja túlkun hjá nýjum höfundum og um leið
hugmyndafræðilegt ívaf sem tengist stjórnmálaátökum þessa tíma.
Persónuleikasálfræði árið 1918
I skáldsögunni Fóstbrœður (Edbrodre, 1918) lýsir Gunnar Gunnarsson land-
námsmönnunum Ingólfi Arnarsyni og Hjörleifi Hróðmarssyni sem tveim
manngerðum af talsverðri hugkvæmni. Sagan byggir á texta í Landnámu og
íslendingabók um þessa menn og virðist greinilegt að Gunnar hefur hugsað
vandlega um heimildirnar, og persónusköpun hans er sannfærandi. Hún er
reyndar að mörgu leyti svo rökrétt og trúverðug að kannski er erfitt að lesa
frásagnir fornritanna af þessum tveimur köppum án tillits til sögunnar eftir
Gunnar, rétt eins og kalla má erfitt að lesa Fóstbræðra sögu án þess að hafa
Gerplu (1952) Halldórs Laxness í huga.1 Báðar þessar skáldsögur eru um
forna fóstbræður en með öndverðum formerkjum þó; í Fóstbræðrum er
fóstbræðralagið aðdáanlegt og skemmtilegt, tákn tryggðar, nýsköpunar og
ævintýra; en í Gerplu væri nær lagi að kalla fóstbræðralagið félag um skjall
og morð.
Velta má fýrir sér hvort samband sé á milli manngerðalýsingar Gunnars
Gunnarssonar í Fóstbrœðrum og manngerðalýsingar Sigurðar Nordals, sem
fram kemur í Einlyndi og marglyndi. Saga Gunnars kom út árið 1918 og
fyrirlestra sína hélt Sigurður veturinn 1918-1919.
I Fóstbrœðrum gerir Gunnar mjög skýrar persónur úr Ingólfi Arnarsyni
og Leifi fóstbróður hans og eru þeir raunar andstæðir að skaplyndi þó
frændur séu og vinir frá barns aldri. Ingólfur er hinn yfirvegaði og trausti
foringi og bóndi en Leifur er ákaflyndur ævintýramaður, hann er skemmti-
legur enda gerist alltaf eitthvað þar sem hann er nærri, en óhemju fljótfær
og skapbráður. Meðan Ingólfur í Fóstbræðrum er kannski ofurlítið daufgerð-
20
TMM 1994:4