Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Blaðsíða 85
og þar sem við sjáum ekki glöggt hvar við eigum heima. Sundrung vitund-
arinnar stafar af því að okkur finnst við eiga að skynja okkur sem „heims-
borgara“ og jafnframt haga okkur sem slíkir án þess að hafa til þess nokkrar
forsendur. Þessi krafa hvílir ekki síst á okkur háskólamönnum sem erum
öðrum þræði virkir þátttakendur í alþjóðasamfélagi vísinda- og fræðimanna
um heim allan. En þessi sama krafa um „heimsvitund“ er líka borin fram af
miskunnarlausri hörku í fjölmiðlum gagnvart landsmönnum öllum. Bóndi
í afdal fær að vita af stórviðburðum heimsins jafnskjótt og þeir gerast, ef þeir
gerast þá ekki beinlínis á skjánum sem hann horfir á þegar hann kemur frá
verkum sínum. Og þá hverfur hann í vitund sinni frá veruleika eigin lífs-
reynslu að veruleika sem hann hefur engin tök á og lítil eða engin skilyrði til
að skilja.
Gegn þessari innrás utanaðkomandi veruleika sem sundrar vitund okkur
þurfum við að byggja markvisst upp betri og heilsteyptari mynd af eigin
veruleika og eigin lífsbaráttu. Við þurfum að endurskapa í vitund okkar hinn
íslenska veruleika, ef við ætlum ekki flosna upp úr okkar eigin íslenska heimi.
Hér dugar ekki að hverfa á vit fortíðar og kynnast heimi bóndans eða
sjómannsins eins og þeir voru, heldur þurfum við að veita þeim athygli eins
og þeir eru núna. Vandinn er að skynja og skilja þann veruleika sem íslenska
þjóðin er í snertingu við í daglegri lífsreynslu sinni og lífsbaráttu á okkar
dögum. f vissum skilningi má segja að hver maður hrærist í sínum eigin
heimi, en kraftaverk þjóðlífsins er einmitt samtenging og samhæfmg þessara
ótal einstöku veralda sem hver maður ber með sér. Og sú samhæfing gerist
ekki nema við einbeitum okkur að henni og sköpum okkur æ skýrari og fyllri
myndir af okkar sameiginlega íslenska heimi og þar með okkur sjálfum.
Skýrt dæmi um slíka viðleitni til raunhæfrar sjálfsmyndar er að frnna hjá
mörgum starfsstéttum sem hafa verið að móta eða endurskoða stöðu sínu
og verkefni í íslensku þjóðfélagi. Verkfræðingar, blaðamenn, prestar, sálfræð-
ingar, sjúkraþjálfar og viðskiptafræðingar eru meðal þeirra sem unnið hafa
slíkt starf í því skyni að styrkja fagvitund sína og skilning á sjálfum sér í
tengslum við alla aðra þætti þjóðfélagsins. Starfsvitund og þjóðvitund eru
raunar nátengdar því að öll störf eru unnin í þágu þjóðarinnar, og það er
þjóðin sem þakkar og virðir störfin sem unnin eru. Og það er þjóðvitundin
sem tengir saman hinar mörgu og ólíku starfsvitundir. Við verðum einfald-
lega meiri og betri íslendingar af því að rækja störf okkar af meiri kunnáttu
og heilindum.
Hér kemur viljinn til sögunnar því að vitundin um það hver við erum
kallar á viljann til að skapa saman þjóðfélagið sem við mótum hvert á sinn
hátt með störfum okkar. Þær hugsjónir sem við leggjum áformum okkar til
grundvallar skipta þá meginmáli. Hér birtist þjóðfélagið okkur sem flókin
TMM 1994:4
83