Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Blaðsíða 82
Ljósara getur það tæpast orðið að það er sérstök menning þjóðarinnar og
þarfir hennar sem krefjast þess að Island verði viðurkennt fullvalda ríki.
íslensk menning er forsenda íslenska ríkisins. íslenska ríkið er til þess að
skapa þjóðinni skilyrði til að rækta menningu sína í andlegum sem verkleg-
um efnum. Með öðrum orðum, ríkið á að gera þjóðinni kleift að samhœfa
krafta sína, vit sitt og vilja. Ríkið er þar með í sömu stöðu gagnvart vitund
og vilja þjóðarinnar og skynsemin gagnvart vitund og vilja einstaklings.
Spurningin um sjálfstæðið og forsendur þess er þá spurning um það hvernig
þessi samhæfing á sér raunverulega stað og á hvaða forsendum. En því fer
fjarri að um einfalda samhæfingu sé að ræða.
Samhæfingin, sem á að tryggja sjálfstæðið, er þríþætt.
í fyrsta lagi þarf hún að eiga sér stað á sviði vitundarinnar. Þjóðin þarf að
vita af sjálfri sér sem ein heild eða ákveðin eining. Eining hennar birtist í
þeim sameiginlegu hugmyndum sem menn deila á sviði skynjunar og skiln-
ings. Tungan gegnir hér lykilhlutverki: Hún heldur saman og miðlar þeim
myndum sem þjóðin hefur af sjálfri sér. Þetta er svið hinnar andlegu eða
bóklegu menningar, sem íslendingar hafa jafnan sett í öndvegi.
I öðru lagi á samhæfingin sér stað á sviði viljans. Þjóðin þarf að eiga sér
sameiginleg áform og hugsjónir um sjálfa sig í framtíðinni, hvernig hún
skipuleggur líf sitt í landinu, aflar sér lífsviðurværis og deilir þeim. Þetta er
svið hinnar verklegu menningar og framkvæmda.
I þriðja lagi þarf svo sameiningin að eiga sér stað á sviði skynseminnar
sem tengir saman vitundina og viljann, skilninginn og áformin, bókvitið og
verksvitið. Hér er það tilfinningin fyrir samlífinu sem allt veltur á, hvernig
fólki líður að vera saman og deila hlutskipti sínu. Þetta er svið siðvits eða
siðmenningar sem er borið uppi af sameiginlegri sögu sem þarf sífellt að
segja á nýjan leik. Þetta var kjarninn í málflutningi Jóns Sigurðssonar fyrir
sjálfstæði þjóðarinnar: hinn sögulegi réttur hennar til að vera hún sjálf og
ráða sér sjálf af því að hún var og er ein söguleg heild gædd innri vitund, vilja
og skynsemi.
Ef við skoðum nú nánar hvern þátt þessarar heildarsamhæfmgar fyrir sig,
þá blasa við erfiðleikar sem gera það að verkum að sjálfstæði okkar er aldrei
tryggt, heldur er því ævinlega ógnað á mismunandi vegu. Og eðli máls
samkvæmt er ógnin mest á því andartaki sem við nú lifum.
Lítum fyrst á svið vitundarinnar þar sem hinar huglægu forsendur eru í
sífelldri gerjun. Fyrir skömmu skynjuðum við íslendingar heiminn á grund-
velli sameiginlegrar og uppsafnaðrar reynslu kynslóðanna sem tungan miðl-
aði. Nú á dögum þarf tungan sífellt að tjá nýja og sundurlausa vitneskju, nýja
heimsmynd eða heimsmyndir sem eru ekki aðeins miklu víðtækari en áður
80
TMM 1994:4