Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Blaðsíða 119
vorið góða, grænt og hlýtt,
glæðir fjör um dalinn
en lagið ekki. Raunar var lag Mendelssohns sem við íslendingar syngjum við
þetta kvæði Jónasar Hallgrímssonar samið við vísur Heines „Mér um hug
og hjarta nú“.
Slíkur samanburður ljóðs og lags minnir á annað. Bundið mál er að sumu
leyti sambærilegt við tónlist, til dæmis er hrynjandi í vísu sambærileg við
takt, og ljóðstafir og rím sambærileg við endurtekningar sem tónlist er full
af. En gáum nú að því að rím og stuðlar eru einkenni á máli sem eru næstum
alveg óháð merkingu og þar með sannleiksgildi. Þau eru þar fyrst og fremst
hljómsins vegna en ekki vegna merkingarinnar og sanngildisins.
Við virðumst hljóta að segja að sannleikurinn skipti engu máli í tónlist.
IV
Merking
En rétt í þessu nefndi ég merkingu. Málið sem við tölum er ekki bara
kerfisbundin hljóð—eða kerfisbundnir stafir á blaði—sem oft eru notuð til
að segja satt og ósatt: „Gras er grænt“ eða „Ég er þyrstur“ eða „Jörðin er kúla“.
Hljóðin hafa ekki bara sannleiksgildi—þannig að röð af þeim sé annaðhvort
sönn eða ósönn—heldur hafa þau merkingu.
Hljóð í málinu hafa merkingu þótt séu alls ekki notuð til að segja satt né
ósatt. Skipanir eins og „Opnaðu dyrnar“, óskir eins og „Bara að hún segi nú
já“ eða spurningar eins og „Hvað er klukkan?“ eru allt saman setningar með
fullri merkingu. En þær hafa ekkert sannleiksgildi.
Er eitthvað sem heitið getur merking í tónlist? Það eru ýmsar mikilvægar
ástæður til að tala um merkingu í tónlist. Hin helzta er áreiðanlega sú hvað
tónlist getur haft djúp og mikil áhrif á okkur. Johann Mattheson gerir mikið
úr því í Fullkomna hljómsveitarstjóranum. Hvernig gæti tónlistin haft þessi
áhrif, vakið slíka hrifningu sem raun ber vitni, ef hún væri alveg merking-
arlaus, ef við sæjum ekkert í henni? Þar með hlýtur hún að hafa merkingu.
En getum við sagt eitthvað af viti um merkingu tónlistar? Það hafa feiknin
öll verið sögð og skrifuð um þetta efni, heilu bækurnar svo hundruðum eða
þúsundum skiptir, og svo stuttar hugleiðingar aftan á plötuumslög eða þá í
tónlistargagnrýni dagblaða og allt þar á milli. Eduard Hanslick—vinur
Brahms—skrifaði eina bókina til að mótmæla öllu merkingarfjasi um tónlist
sem allt var fullt af í kringum hann.5
TMM 1994:4
117