Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Page 28
er þó ekki sagt að ekki hafi verið nein innbyrðis stéttabarátta í landinu fyrir
1918 — það væri fjarri sanni. Hún komst aðeins í forgrunn eftir þann tíma.
Og þetta var dálítill paradísarmissir, fannst sumum. Nú var ekki þessi
dýrlega eining sem hafði verið í landinu áður þegar allir (hérumbil!) gátu
sameinast um að heimta frjálsa verslun og íslenskan fána. Nú var hver
höndin upp á móti annarri. Sumir skrifuðu um það í tímarit hvað það væri
grátlegt að hjúin gætu ekki lengur staðið með húsbændum sínum. Heimur
versnandi fer! hrópuðu íhaldssamir menn.
Þessi paradísarmissir átti meira að segja eftir að koma niður á persónu-
leikasálfræði þeirra Gunnars Gunnarssonar og Sigurðar Nordals. Hún birtist
nú í hugmyndafræðilegri túlkun, já hreint og beint pólitískri túlkun, sem
mjög gekk þvert á upphaflega ætlun þeirra, sem var að minnsta kosti að hluta
að sýna tvær almennar manngerðir sem gætu verið til á ýmsum tímum, og
væru eiginlega óháðar stað og stund. Hér hef ég í huga tvær tveggja binda
skáldsögur þar sem vísað er beint og óbeint í hugmyndina um þessar tvær
andstæðu manngerðir og víkur nú sögunni að þeim.
Marglyndur og drykkfelldur forsætisráðherra
Sigurjón Jónsson rithöfundur sendi frá sér skáldsögu í tveim hlutum á
árunum 1922 og 1924. Heitir fyrri hlutinn Silkikjólar og vaðmálsbuxur ogsá
seinni Glcesimennska. f þessum sögum er sagt frá nokkrum mönnum sem
skipa sér greinilega í tvo flokka. Presturinn á Grund og guðfræðingar tveir,
Áskell og Snorri, eru allir stillingarmenn, samviskusamir, góðir og mark-
sæknir Ingólfar. En þorpari sögunnar, Jón á Grund, sonur prestsins, hann er
fríður og skemmtilegur, kvensamur, drykkfelldur og hrífandi, hann er marg-
lyndur, og reyndar er hann greinilega uppskafhingur í augum höfundarins,
þó að hann endi með því að verða forsætisráðherra í lok seinna bindisins.
Jón er á yngri árum svo mikill flagari að hann tælir kærustuna frá vini sínum
og velgerðarmanni (Áskeli, sem verður við það geðveikur), dregur hana
suður til Reykjavíkur og svíkur hana þar, enda fær hún berkla og deyr
fljótlega upp úr því; henni versnaði stórum við að horfa í gegnum rifu á vegg
og sjá Jón fífla sjómannskonuna Alfonsínu, sem dansar nakin uppi á borði
í herberginu hans — það er erótíski kaflinn í bókinni, annars er hún mjög
siðprúð eins og flest annað sem kom út á þessum árum á íslandi. Jón svindlar
sér í gegnum lagaskólann í Kaupmannahöfn og annað er eftir því hjá honum,
víxlar hans falla ógreiddir á vini og kunningja—já, ekki þarf að segja meira:
Þetta er í skemmstu máli ósvikinn fantur!
Og Jón á Grund sigrar valmennið séra Snorra í kosningum með eins
atkvæðis mun og gerir Alþingi enga athugasemd þó að upp komist um
26
TMM 1994:4