Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Síða 57
ing í tilverunni. Tengsl manna í milli eru gagnsærri en aðrar þjóðir eiga að
venjast, jöfnuður betri (þótt aðlögun okkar að heimsmarkaði hafi á síðari
árum aukið mun á ríkum og fátækum), margt getur hjálpað íslendingi til
þess innra sjálfstæðis sem eflir hann til að kikna ekki undan hlutskipti sínu,
til að hann neiti því að verða leiksoppur afla sem hann hefur engin tök á.
í þröngum hagfræðilegum skilningi borgar sig ekki að reka sjálfstætt
íslenskt þjóðfélag, íslensk menning er kannski fallít á heimsmarkaði — en
ekkert er okkur flestum samt eftirsóknarverðara. Vegna þess að ef við snúum
baki við þessum tilverugrundvelli, þá liggur leiðin ekki frá „einangrun“ til
framfara, eins og er látið í veðri vaka, heldur frá tilveru sem er okkar til
„heimsþorpsins". Heimsþorpið þarf svosem ekki að vera neitt helvíti, en það
er heldur leiðinlegt pláss og kaldranalegt. Þar eru tvöhundruð tegundir af
ostum og fimmtíu tegundir af viskí, en fjölbreytni í mannlífi er lygilega lítil
— allir á þeirri leið að samsama sig bandarískum meðaljóni í viðhorfum,
neyslu, lífsháttum ( og þetta á líka við um Evrópulönd náttúrlega, hvað sem
þeir reigja sig, kommissarar í Brussel). í heimsþorpinu er búið að samræma
ekki einasta „samkeppnisstöðu fyrirtækja“ heldur líka sjónvarpsáhorf, at-
vinnuleysi sem fastan dagskrárlið í tilverunni, gefa „rekstrarumhverfi" al-
þjóðafyrirtækja forgang fram yfir félagslegar þarfir. Það er búið að staðla
menningarlega stéttaskiptingu, það er meira að segja búið að staðla afmark-
aðar tilraunir til að brúa þessa stéttaskiptingu ( með fjöldatónleikum tenór-
söngvara). Það er búið að hagræða öllu í þágu þeirra sem fjármagn eiga, það
er búið að skapa samræmt samfélagskerfi sem kennt er við „tvo þriðju“ sem
hafa það gott eða sæmilegt — og þá er eftir einn þriðji þegnanna sem er
óþarfur, dæmdur úr leik.
Því meir sem fullveldið skerðist í þeim mun ríkari mæli flytjum við inn í
heimsþorpið. Þeim mun eiginlegra verður mönnum að líta á allt það sem
þar gerist sem náttúrulögmál, sem ekki verða umflúin. „Hægt mun að festast,
bágt mun úr að víkja“, kvað Jón Helgason. „Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir
fjötra“ orti Sigfús Daðason. Og þegar menn hafa búið þar í heimsþorpinu
um skeið getur vel svo farið að mönnum sýnist það ekki skipta neinu sérstöku
máli lengur hvort þeir nenna að tala tungu forfeðranna eða ekki. Og það
getur vel verið að svo verði fyrir þeim komið að þeir hafi rétt fyrir sér.
TMM 1994:4
55