Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Page 91
Guðbergur Bergsson
Ég er bara með kettinum
Ég þurfti að hringja í konu sem ég þekkti ekki. Það var stelpa sem
svaraði og sagði:
Hér á engin heima með þessu nafni. Þú hringir í skakkt númer.
Hver er í þessu númeri? spurði ég þá, af því það er aldrei að treysta
krökkum.
Bara ég á daginn, ekki samt alltaf, svaraði hún.
Ég þóttist heyra að þetta væri kotroskin stelpa eins og krakkar voru
á meðan þeir áttu foreldra, áður en fólk varð sjálfstætt og hjón fóru
að vinna úti, en létu börnin vera ein heima. Þetta var auðheyrilega
heilbrigð stelpa og ég vissi að hún legði á að símtali loknu, svo ég brá
á leik við hana og sagði:
Jæja, fröken Jóna, þakka þér fyrir spjallið.
Ég ætlaði að kveðja en hún sagði:
Ekki Jóna heldur Sigga Jóna.
Vertu þá sæl, Sigga Jóna, sagði ég.
Ef þú nennir ekki að tala við mig í síma ættirðu bara að senda mér
bréf þótt allir séu hættir að skrifa, sagði hún.
Ertu ein af þeim lötu? spurði ég.
Nei, svaraði hún. Ég er ekki pennalöt og skrifa oft.
Auðvitað ömmu gömlu í sveitinni, sagði ég.
Ég á enga ömmu, sagði hún skærum rómi. Ég á engan afa. Ég á enga
frænku, ekki frænda. Ég á ekki einu sinni pabba og mér er alveg sama.
Hverjum skrifarðu þá? spurði ég og þóttist verða klumsa, en varð
kannski bara væminn eins og fullorðið fólk sem þykist koma til móts
við krakka.
Ég skrifa stundum hundunum sem gelta á bænum Kálfholt í Flóa.
Nú, sagði ég. Svara þeir bréfum?
Þú ættir ekki að segja nákvæmlega það sama og aðrir, sagði hún.
TMM 1994:4
89