Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Qupperneq 92
Þegar ég segi frá þessu segja allir bjánar: „Svara þeir bréfum?“ Eins og
hundar svari bréfum!
Stelpan sló mig dálítið út af laginu. Ég vissi ekki hvað ég ætti að
segja, en sagði:
Kannski hefurðu verið í sveit og þekkir hundana.
Ertu galinn? hrópaði hún. Það er ómögulegt að þekkja hunda.
Maður getur umgengist hunda og leikið sér við þá, en það þekkir
enginn hundana.
Samt væri ekki amalegt að fá svar frá hundi, sagði ég.
Ég skrifa ekki af eigingirni, sagði hún. Ef mig langaði að fá svarbréf
væri ég í bréfasambandi við strák eða stelpu á mínu reki og við
mundum skiptast á frímerkjum.
Þætti þér ekki gaman, ef maður gæti fengið sendibréf frá hundum?
spurði ég. Ekki hefði ég neitt á móti því.
Æ, ég veit það ekki, stundi hún. Ég fæ ekki svo mörg bréf að ég viti
hvernig það er. í rauninni fæ ég ekkert. Svo ég get ekki svarað þessu
fyrr en þú skrifar.
Kannski rita ég yður langt fréttabréf, fröken Sigga Jóna, sagði ég og
ætlaði að leggja á. Hún hækkaði róminn og sagði:
Ekki fröken. Ég er ekki einu sinni orðin nógu gömul til að vera
kölluð ungfrú. Ég er telpa.
Ég heyri það, sagði ég.
Þú ættir ekki bara að heyra, heldur vita að ég er telpa, sagði hún.
Mér heyrist þú vera svo fullorðinsleg, sagði ég.
Uss, það er ekkert að marka röddina, það er auðvelt að vera fullorðin
í síma og rugla aðra, sagði hún. Þegar stelpur svara og hringt er í skakkt
númer, segja þær: „Nei, þetta er vitlaust númer.“ Síðan skella þær á og
vilja ekki tala við karla. Þær eru meira fyrir kærastana.
Það er skiljanlegt, sagði ég.
Auðvitað, sagði hún. Ég veit að sumar stelpur eru svo mikið fyrir
kærastana sína, að þegar þeir hringja og spyrja eftir þeim og þær segja:
„Hvað, þekkirðu mig ekki, ég er hún Sigga Dóra?“, og þeir svara:
„Fyrirgefið, fröken góð, ég heyri að þetta er bæði vitlaust númer og
vitlaus kærasta“, þá finnst þeim svarið vera svo ægilegur brandari að
þær hætta ekki að veina af hlátri fyrr en pabbi þeirra segir: „Það verður
að loka símanum, annars verð ég vitlaus.“
90
TMM 1994:4