Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Side 106
hverfast um að finna kjarna verksins, það sem skáldið vildi sagt hafa eða segja
ef hann hefði skrifað verkið í dag. Eins geta markmið og boðskapur sýning-
arinnar einfaldlega snúist um það sem leiklistafólkið sjálft, einkum leikstjór-
ann, langar til að glíma við í það og það skipti. Er leikhúsið kannski orðið
póstmódernt? Það er jú búið að ganga í gegnum natúralisma, raunsæi,
abstrakt, popplistina, nýraunsæið og jafnvel módernismann einhvers staðar
inni á milli. Ég er þó ekki alveg viss. Á íslandi fólst módernisminn í leikhúsinu
kannski einfaldlega í því að íslenskir höfundar fóru að skrifa leikrit á ný,
Jökull Jakobsson, Agnar Þórðarson, Oddur Björnsson, Birgir Sigurðsson o.fl.
Meirihluti leikritanna hafði reyndar lítið með módernisma í formi eða
umfjöllunarefni að gera þó örlað hafi á slíku. í póstmódernisma leikhússins
eins og í öðrum listgreinum er það upplifunin og sú sköpun njótandans sem
rís þar af sem skiptir meginmáli, fylgnin við ákveðna hugmynd sem viðkom-
andi leikrit gæti sem best þjónað eða þá að leikritið er endurmótað til að svo
megi verða. Hér á landi hafa leikstjórar verið fremur ragir við tilraunir af
þessu tagi, enda hafa áhorfendur og verkamenn leikhússins, leikararnir,
yfirleitt tekið slíkt fremur óstinnt upp. Leikritið, bókmenntaverkið, er heilagt
höfundarverk sem ekki má breyta nema um augljósar ambögur sé að ræða
og textinn hafi gersamlega misst marks miðað við daginn í dag. En leikhúsið
hefur, eins og aðrar listgreinar, víkkað út athafnasvið sitt. Skírskotanir fram
og aftur um heimssöguna, til annarra listgreina, eiga ekki síður heima í
leiklist en í myndlist, bókmenntum og tónlist. Og leikhúsið bíður upp á
meira rúm til slíks en aðrar listgreinar.
Á undanförnum áratugum hefur vestrænt leikhús verið að breytast, þró-
ast í takt við nýtt samfélagslegt umhverfi. Þegar túlka á sögu á leiksviði verður
sú túlkun að bjóða upp á annað áreiti en saga á bók eða í kvikmynd. Og
leikhúsið hefur alltaf eitt fram yfir aðra listræna túlkun: hið raunverulega
lifandi augnablik. Auk þess býður engin listræn túlkun í jafnmiklum mæli
upp á tækifæri til að flétta saman allar listgreinar og hæfileika fjölda manns.
Leikhúsið er boðskiptastöð
Leikhúsið er lifandi mauraþúfa og allir sem þar vinna eru loftfimleikamenn
sem ekki nota net. Það er ekki erfitt að fmna skýringu á því að allt fram á
þessa öld stóðu leikarar utan hins borgaralega samfélags. Þetta farandfólk
sem átti aðeins heima í miskunnarlausri list sinni, list skemmtunar og
sannleika, lítillætis sem sannfærir og hroka sem sannfærir. Þetta fólk kom og
fór og skildi þorpin, bæina, byggðalögin eftir með umtalsefni til margra
mánaða. Hvað höfðu leikararnir ekki sagt og gert í leiksýningunni, hvað
höfðu þeir ekki sagt og gert utan leiksýningarinnar. Sagan sem leikritið sjálft
104
TMM 1994:4