Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Side 118
dæmis í ræðu prests af stólnum, og orðaröð í einstökum setningum, hæfi-
legar og óhæfilegar endurtekningar, andmæli og svör, hæfilegt skraut og
skrautleysi, og svo mætti lengi telja. Þessi mælskufræði er nú löngu horfin
úr allri skólakennslu á Vesturlöndum, og þess vegna er kannski ekki nema
eðlilegt að hún sé horfin úr tónlistarlífinu líka. Ég veit ekki nema af einum
tónlistarmanni í samtímanum sem boðar endurvakningu mælskufræði í
tónlistinni. Sá er hljómsveitarstjórinn Nikolaus Harnoncourt sem er þó
frægari fyrir starf sitt að því að gömul tónlist sé flutt á gömul hljóðfæri eins
og tíðkazt hefúr í Skálholti um nokkurt skeið. Samt lifa orð úr þessum
fræðum í máli okkar, til dæmis gríska orðið „þema“ sem merkir bæði stef í
tónlist og efni í ræðu.
Það er auðvelt að sýna fram á að tónmælskufræði Matthesons hafi verið
fylgt, hvort heldur með ráðnum hug eða óafvitandi, af samtímamönnum
hans. Þannig hef ég séð ágæta og sannfærandi greiningu eftir forskriftum
Matthesons á fyrsta kafla í þriðja Brandenborgarsamleik Bachs. Þar koma
til dæmis við sögu framsaga, andmæli, svör við andmælum og sönnun
eða staðfesting.4 Þessum tökum má svo ekki bara taka heila kafla í tón-
verki. Það má líka fylgja forskriftum Matthesons og setja greinarmerki—
kommur, punkta, þankastrik og jafnvel sviga—í einstakar hendingar eða
setningar í slíkum kafla. Tónmælskufræðin náði yfir tónlistina í smáu sem
stóru.
III
Sannleikur
Nú er auðvelt að finna að þeirri meginkenningu Matthesons að tónlist sé
ekkert annað en mál. Málið er fyrst og fremst, mundu margir vilja segja og
þar á meðal allur þorri heimspekinga á okkar tímum, tæki til að segja satt og
ósatt. Þótt vel megi gera margvíslegar listarinnar kröfur til ræðumanns, þá
er meginkrafan til hans að jafnaði sú að hann segi rétt frá. Þess vegna er
stærðfræði, sem segir satt og ósatt, réttilega kölluð mál sem stærðfræðingar
skapa og aðrir ffæðimenn geta síðan notað til að fjalla um sín eigin viðfangs-
efni eins og sólarganginn eða erfðirnar. En það er bersýnilega enginn staður
fyrir slík sannindi né ósannindi í tónlist. Hún er ekki til þess gerð að láta í
ljósi skoðanir eða kenningar. Þótt við getum sagt að stef sé staðhæft þá hefur
sú staðhæfmg ekkert sannleiksgildi.
Eða lítum á sönglag. Kvæði og tónlist geta haldizt í hendur þannig að hvort
um sig styrki hitt með ýmsu móti. En kvæðið getur staðhæft hluti eins og
116
TMM 1994:4