Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Side 110
munahóps, sem hefði verið ritskoðaður út úr sögunni. Um þessi nöfn var
síðan talað, of mikið og of lengi, á meðan umræðan hefði átt að snúast um
þá gömlu karlabókmenntasögu sem verið var að gagnrýna. Sömuleiðis hefði
að ósekju mátt ræða meira um það hvernig menningarleg völd eru fengin
og hvernig þeim er beitt, eða það sem franski félagsfræðingurinn Pierre
Bourdieu kallar „baráttuna um hið menningarlega svið“. Ég fagna nú samt
þessum sjónvarpsþætti sem ég held að sé fyrsti og eini umræðuþátturinn um
bókmenntir sem gerður hefur verið hjá sjónvarpinu á forsendum femínískr-
ar gagnrýni. En til hvers eru femínískir bókmenntafræðingar að berjast fyrir
kvennabókmenntum ef rithöfundarnir sjálfir vilja ekki sjá þetta hugtak?
Fyrsta skilgreining hugtaksins „kvennabókmenntir“ hljóðaði svo: „bók-
menntir effir konur, um konur, fyrir konur“. Þessi skilgreining vekur um-
svifalausa köfnunar- og innilokunarkennd enda var hún afskrifuð nánast
strax og hugtakið skilgreint sem „bókmenntir eftir konur“. Hugtakið var
beinlínis ætlað til að geta haldið „kvennabókmenntunum“ fram til jafns við
„karlabókmenntir“, gagnrýna tvíhyggjuna sem úthlutaði bókmenntum eftir
karla sólarhliðinni en skipaði konum sess í skugganum. Krafist var réttar og
virðingar sem bókum kvennanna hafði ekki verið sýnd. Hugtakið er þannig
pólitískt hugtak til notkunar í „baráttunni um hið menningarlega svið“.
Ef konum sem skrifa bókmenntir eða skrifa um bókmenntir finnst þetta
hugtak þrengja að sér eða eru ósammála því hafna þær því að sjálfsögðu. Það
gerir franska skáldkonan Daniéle Sallenave í skemmtilegu viðtali við Friðrik
Rafnsson (TMM, 1, 1988) sem hann notar í grein sinni. Ég mæli með því
viðtali en bendi jafnframt á að þegar franskar menntakonur tala um „femín-
isma“ og „kvennabókmenntir“ vísa þær til síns eigin samfélags, þar sem þessi
hugtök hafa aðra sögu og merkingu en í Bretlandi, Bandaríkjunum og á
Norðurlöndum. Norski bókmenntafræðingurinn Toril Moi gerir grein fýrir
þessu í bók sinni Sexual/Textual Politics (1985).
Meira máli skiptir ef til vill að nokkrar af okkar helstu skáldkonum, Fríða
Á. Sigurðardóttir, Svava Jakobsdóttir og Álfrún Gunnlaugsdóttir, hafa sagt
eitthvað svipað í viðtölum, þ.e. að þær skrifi ekki „sem konur“ heldur skrifi
þær með hjálp tvíkynja ímyndunarafls síns. Ég skil þessar yfirlýsingar þannig
að með „tvíkynja“ sé átt við kynin tvö, ekki aðeins sem líffræðilegkyn heldur
félags- og menningarlega ákvörðuð kyn (á e. ,,gender“) og þegar skáldin tali
um hina tvíkynja sköpun tali þau um tvenns konar sjálfsmynd og tvenns
konar orku sem eigist við í stöðugri víxlverkun í bókmenntatextanum.
Hugtakið „tvíkynja“ vísar ekki til einhvers konar sálfræðilegrar útjöfnunar
heldur til tveggja rafskauta í vitundinni með ærinni spennu á milli sín og
gefandi átökum í og á milli hugveranna.
Ég er sammála því að sú „kynjahyggja“ sem kennd hefur verið við „rót-
tækan femínisma“ og lesa má um í amerískum greinum og fræðibókum, sé
jafn „einsýn“ og „ofstækisfull“ og hin krampakennda karlremba sem vill
helst afturkalla alla kvennabaráttuna og koma aftur á menningarlegu ein-
104
TMM 1995:2