Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Blaðsíða 94
HELGl HÁLFDANARSON
Ofviðrið (The Tempest)
1.1.63. „Sökkvum þá . . .“ Hér stendur í frumtexta: „Let’s all sink wi’th
’King.“ Og telja útgefendur, að með þessum rithætti ætlist höfundur til að
orðin séu töluð hratt. En sennilega er þó öðru nær. Raunar er slíkur
ritháttur algengur hjá Shakespeare, án þess séð verði nokkur ástæða önnur
en skipan orðanna í bragliði. Og megi hér nokkuð af ráða um flutning,
þá gæti það helzt verið það að Antóníó er mjög drukkinn, og þeir Sebastían
báðir. Það er einsog mönnum hætti til að gera of mikið úr alvöru þessa
fyrsta atriðis í leiknum, og sjáist yfir hitt, að höfundur hefur að líkindum
umfram allt hugsað sér að vekja með því hlátur. Það eru nú einmitt ær og
kýr þessa höfundar, að koma mönnum til að hlæja þegar sízt skyldi, raunar
einkum þegar svo stendur á sem hér, að ástæðan til hryggðar er ímynduð.
Ef til vill hefur þetta upphaflega verið leikið þannig: Þegar þeir Antóníó
og Sebastían koma aftur, eru þeir með flösku á lofti, og þeir hella sér yfir
bátsmanninn fremur með drykkju-ganti en í alvöru. Antóníó sýpur á,
þegar hann segir við bátsmanninn: „Við erum ekki eins hræddir við að
drukkna og þú.“ Hér stendur í frumtexta „to be drowned‘, sem raunar gæti
jafnframt þýtt: að verða fullir, líkt og í Þrettándakvöldi, 1.5.133: „a third
(draught) drowns him.“ Síðan drekkur Sebastían, og þegar sjómennirnir
fara, réttir hann bátsmanni flöskuna; og bátsmaður tekið við og segir:
„Hvað? eigum við að kæla munninn?“ (En þau orð eru stundum skýrð
svo, að nú dragi bátsmaður upp flösku úr vasa sínum og súpi á, sér til
hughreystingar, þegar hann missir alla von um líf.) Antóníó sér að báts-
maður sýpur á aftur, og segir: „Svo drykkju-svampar sjúga úr okkur lífið“,
og hann meinar það á tvennan hátt: 1) drykkjuskapur skipstjórnarmanna
stofnar siglingunni í voða, og 2) þessi stórkjaftur ætlar að sloka alla
lífsbjörgina úr flöskunni. Og hann heldur áfram í viðeigandi tón. Vel gat
einnig Gonsaló verið sætkenndur, og jafnvel fleiri. En atriðinu lauk með
því að skipið „fórst“, og áhorfendur hlógu. (1957)
92
TMM 1997:4