Milli mála - 01.06.2014, Síða 16
UM DÖNSKUKUNNÁTTU ÍSLENDINGA Á NÍTJÁNDU ÖLD
Milli mála 6/2014
19
Í umræðu um dönskukunnáttu Íslendinga er stundum látið að
því liggja að dönskuslettur í máli þeirra séu til marks um góða
kunnáttu í málinu. Sú getur vitaskuld verið raunin, en þó er ástæða
til að gjalda varhug við að draga slíkar ályktanir gagnrýnislaust. Í því
sambandi má benda á að enskar slettur í íslensku nútímamáli þurfa
alls ekki að vera til vitnis um mikla enskukunnáttu þeirra sem þær
viðhafa. Einnig gefa dæmi um afbakanir algengra danskra orða í
munni Íslendinga til kynna, að stundum hafi þeir ekki með öllu skil-
ið merkingu dönsku orðanna eða jafnvel misskilið hana hrapalega.
Nefna má tökuorðin „kartöflumús“/„kartöflumós“ (kartoffelmos)
og „lagó“ (lad gå) og einnig „kryddsíld“ (krydsild), svo tekið sé ný-
legra dæmi um misskilning af þessum toga. Rétt er að undirstrika
að mikill munur er á því að sletta einu og einu orði á dönsku, þegar
íslenska er töluð, og vera fær um að skilja talaða og ritaða dönsku
og geta tjáð sig lipurlega á málinu í ræðu og riti.
Samskipti við Dani og lestur á dönsku
Fram um miðja átjándu öld voru örfáir Danir með fasta búsetu á
Íslandi. Breyting varð þar á með tilkomu Innréttinga Skúla Magnús-
sonar, en þá flutti nokkur fjöldi danskra iðnaðarmanna til landsins
og settist að í Reykjavík og nágrenni. Öllu afdrifaríkari urðu þó
breytingar á málefnum verslunarinnar á áttunda og níunda áratug
aldarinnar. Fram til ársins 1776 var dönskum kaupmönnum ekki
heimilt að búa hérlendis yfir vetrarmánuðina, en frá og með árinu
1777 var þeim frjálst að setjast hér að ásamt fjölskyldum sínum.
Árið 1786 fengu Reykjavík og 5 aðrir verslunarstaðir, Grundarfjörð-
ur, Ísafjörður, Eyjafjörður (Akureyri), Eskifjörður og Vestmanna-
eyjar, kaupstaðaréttindi, sem skapaði enn frekari skilyrði fyrir fasta
búsetu danskra manna í landinu.12 Verslunarstéttin var á fyrri hluta
nítjándu aldar að miklu leyti dönsk og allt skráð á dönsku í
verslunarbækurnar. Íslenskir verslunarmenn þurftu að semja sig að
þessum aðstæðum.13 Æðstu embættismenn voru framan af danskir,
12 Lýður Björnsson, „18. öldin“, Saga Íslands VIII, ritstj. Sigurður Líndal, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 3–289, hér bls. 246.
13 Klemens Jónsson, Saga Reykjavíkur. Fyrra bindi, Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan, 1929, bls.
259.