Milli mála - 01.06.2014, Side 18
UM DÖNSKUKUNNÁTTU ÍSLENDINGA Á NÍTJÁNDU ÖLD
Milli mála 6/2014
21
Dani og með þátttöku í félags- og menningarlífi þeirra fólust tæki-
færi til dönskunáms fyrir Íslendinga, og oft er vikið að því í heimild-
um að þeir sem bjuggu í Reykjavík hafi kunnað meira fyrir sér í
dönsku en fólk til sveita. En hvað er átt við, þegar sagt er, að
Íslendingar hafi kunnað eða haft vald á dönsku? Hvernig lærðu þeir
málið, og til hvers notuðu þeir það? Margt bendir til þess að
dönskukunnátta Íslendinga almennt hafi verið takmörkuð fram á
seinni hluta átjándu aldar. Öðru máli gegndi vitaskuld um þá, sem
dvöldu í Danmörku um lengri eða skemmri tíma, t.d. vegna náms
eða starfa. Í bókinni Saga Reykjavíkur, skrifar höfundurinn Klemens
Jónsson17 að flestir íbúar í Reykjavík á fyrri hluta nítjándu aldar, sem
alist höfðu upp í bænum eða nágrenni hans, kynnu dálitla dönsku.
Þar hafa samskipti við danska menn skipt sköpum, en einnig félags-
og skemmtanalíf þeim tengt, t.d. klúbbastarfsemi og leikhús, þar
sem stundum var leikið á dönsku. Af heimildum má ráða að fáir
Íslendingar, sem ekki höfðu dvalið ytra eða átt í beinum sam-
skiptum við danska menn yfir lengri tíma, hafi haft góð tök á að tala
dönsku, og að það hafi valdið þeim erfiðleikum, þegar reyndi á slíka
kunnáttu. Dæmi þess efnis má finna í endurminningabók Benedikts
Gröndals, Dægradvöl. Höfundur, sem ólst upp á Álftanesi, skrifar að
hann hafi lítið sem ekkert geta talað dönsku þar sem hann hafi
hverfandi heyrt hana talaða, en að lestur á málinu hafi ekki vafist
fyrir honum, sbr.:
Þorsteinn Jónsson settist að í Reykjavík, þegar hann fór frá okkur, og fékk
til sölu ýmsar danskar bækur; sumar af þeim fékk ég, svo sem kvæði
Oehlenschlägers og nokkrar skáldsögur eftir hann; en dönsku lærðum við
ósjálfrátt af bókum, og komst ég fljótt upp á að rita hana, en ég lærði ekki
að tala hana né skilja framburðinn fyrr en löngu seinna, eftir að ég var
kominn til Kaupmannahafnar, og búinn að vera þar nokkra stund, því
heima heyrði ég aldrei danskan mann tala, svo nokkuð munaði um eða ég
gæti numið af.18
Í öðru samhengi víkur Benedikt að takmarkaðri dönskukunnáttu
sinni, þegar hann átti rétt fyrir utanför sína árið 1846 samskipti við
17 Klemens Jónsson, Saga Reykjavíkur, bls. 253.
18 Benedikt Gröndal, Dægradvöl, Reykjavík: Mál og menning, 1965, bls. 46–47.